Já já – nei nei 13. september 2004 00:01 Halldór Ásgrímsson minnir svolítið á Ólaf Jóhannesson. Ekki einungis í því hvernig honum líkar betur að vinna með Sjálfstæðismönnum en vinstri mönnum og ekki aðeins í festulegum talandanum sem þjóðin virðist taka meira mark á en glóandi mælsku – og ekki heldur aðeins í hæglætislegum húmornum sem miðlað er með góðlátlegu glotti - heldur virðist Halldór hafa endurnýjað frægustu kennisetningu Ólafs þegar kemur að stefnumótun mikilvægra mála, og orðuð var með tilvitnun í sjálfan Guð almáttugan ef mig misminnir ekki: "ræða þín sé já já, nei nei". Og átti kannski við að ekki væri neinn endanlegur sannleikur til í neinu máli eða að halda bæri dyrum opnum – eða eitthvað allt annað – en setningin varð eins og mottó yfir hentistefnu Framsóknarflokksins sem talaði ævinlega tungum tveim til að krækja í kjósendur með ólíkar lífsskoðanir, enda flokkurinn á þessum árum fyrst og fremst hinn pólitíski armur auðhringsins SÍS sem halda þurfti gangandi til að fá fyrirgreiðslu í bönkum og ríkiskerfi. Á milli þeirra Ólafs og Halldórs ríkti Steingrímur Hermannsson sem formaður flokksins og tókst að gefa flokknum nútímalegt yfirbragð og marka honum hófsama stefnu hins víðsýna og pragmatíska miðflokks. Það varð til að höfða til þéttbýlisfylgis sem nú virðist gufað upp að mestu, ekki síst í kjölfar illskiljanlegrar upphefðar Árna Magnússonar á kostnað Sivjar Friðleifsdóttur. Nú er Framsóknarflokkurinn kannski fyrst og fremst hinn pólitíski armur Landsvirkjunar og greinir sig að öðru leyti í fáu frá Sjálfstæðisflokknum – lætur íslenska þjóð meira að segja skrifa upp á feigðarflan Bandaríkjamanna í Írak. Eftir því sem yfirbragð hins víðsýna miðflokks dvínar - enda þéttbýlisfylgi flokksins með minnsta móti - hefur Halldór Ásgrímsson leitast við að endurnýja sjálfsmynd Framsóknarmanna sem fallin sé til þess að blása þeim kapp í kinn. Og leitar þá í klassíkina. Hann hefur með öðrum orðum endurnýjað hina óvenjulegu pólitísku hugsun Ólafs með sérlega kraftmiklum hætti og gefur okkur þar með væntanlega forsmekkinn að því hvers við megum vænta af forsætisráðherratíð hans. Eða kann einhver að útskýra fyrir okkur hverjar ályktanir okkur er ætlað að draga af hinum skorinorðu ræðum Halldórs um Evrópusambandið? Er hann á móti því? Er hann með því? Eigum við að ganga í það? Er það útilokað? Já já. Nei nei. Í fyrstu ræðunni sem hann hélt á Akureyri fór hann hörðum orðum um sjávarútvegsstefnu sambandsins, hljómaði beinlínis eins og Vinstri-grænn, notaði gamalkunnugt hugtak úr þeim herbúðum sem svo sannarlega var óvænt að sjá frá þessum manni sem til þessa hefur látið sér nægja að vera í "hópi þeirra viljugu". Hann notaði orðið "Nýlendustefna", og maður bjóst allt eins við að heyra hann næst fara með Land þjóð og tunga eftir Snorra Hjartarson eins og um árabil tíðkaðist í ræðum vinstri manna gegn Evrópusambandinu – að minnsta kosti útilokaði hann með öllu aðild að Evrópusambandinu að óbreyttri sjávarútvegsstefnu. Næst spyrst til hans í Borgarnesi og hann er alveg ákveðinn og á Akureyri og aftur er ræða hans fyrsta frétt í fréttatímum - nema nú kemur frá honum sá boðskapur að ekki beri að útiloka aðild – það sé "ábyrgðarleysi". Hins vegar telur hann að Framsóknarflokkurinn eigi að leiða umræðurnar um þessi málefni, hér eftir sem hingað til. Já já – nei nei. Eða kannski: eða þannig. Þegar öllu er á botninn hvolft þá má segja að ráðherrann fari þarna nærri því að túlka afstöðu okkar margra til aðildar að Evrópusambandinu. Einn daginn finnst manni það hálf niðurlægjandi að vera ekki með og fáránlegt að taka tuðandi við öllum þessum reglugerðum frá Brussel án þess að hafa neitt um þær að segja - en næsta dag finnst manni reisn yfir því að standa keikur og utan þess klúbbs með miklu meiri hagvöxt en þeir, og eðlilegt að lög séu sett sem allra næst því fólki sem þau eiga að ná til. Einn daginn skilur maður ekki hvers vegna togarar frá Evrópusambandinu mega ekki allt eins veiða fiskinn hér við land og togarar frá Samherja sem keypt hafa óveidda fiskinn í sjónum af mönnum sem áttu hann aldrei – en næsta dag finnst manni það ógnvekjandi tilhugsun að heimsmeistarar Evrópusambandsins í landbúnaðarklúðri taki að sér stjórn fiskveiða hér við land... Þetta snýst líka um óáþreifanlegri hluti, sjálfsmynd okkar sem hér búum, nauðsyn okkar á því að tengjast stærri heildum og fjarlægjast hinni stórhættulegu Bandaríkjastjórn, stolt okkar og sjálfsvirðingu sem kannski verður betur nærð innan sambandsins en tuðandi utan þess – kannski ekki. Þetta er flókið mál og í rauninni ánægjuleg nýbreytni að fá forsætisráðherra sem hugsar á jafn þversagnakenndan hátt um það og við hin. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Hálft líf heimilislausra kvenna Kristín I. Pálsdóttir,Halldóra R. Guðmundsdóttir Skoðun Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun Í morgun vöknuðum við á merkilegum tíma Silja Rún Friðriksdóttir Skoðun Langþreyttir kjósendur hafa tækifæri til breytinga Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Félag áhugamanna um löggæslu Agnes Ósk Marzellíusardóttir Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Halldór 30.11.2024 Halldór Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Heiðarleiki er ófrávíkjanleg krafa Unnar Þór Sæmundsson Skoðun
Halldór Ásgrímsson minnir svolítið á Ólaf Jóhannesson. Ekki einungis í því hvernig honum líkar betur að vinna með Sjálfstæðismönnum en vinstri mönnum og ekki aðeins í festulegum talandanum sem þjóðin virðist taka meira mark á en glóandi mælsku – og ekki heldur aðeins í hæglætislegum húmornum sem miðlað er með góðlátlegu glotti - heldur virðist Halldór hafa endurnýjað frægustu kennisetningu Ólafs þegar kemur að stefnumótun mikilvægra mála, og orðuð var með tilvitnun í sjálfan Guð almáttugan ef mig misminnir ekki: "ræða þín sé já já, nei nei". Og átti kannski við að ekki væri neinn endanlegur sannleikur til í neinu máli eða að halda bæri dyrum opnum – eða eitthvað allt annað – en setningin varð eins og mottó yfir hentistefnu Framsóknarflokksins sem talaði ævinlega tungum tveim til að krækja í kjósendur með ólíkar lífsskoðanir, enda flokkurinn á þessum árum fyrst og fremst hinn pólitíski armur auðhringsins SÍS sem halda þurfti gangandi til að fá fyrirgreiðslu í bönkum og ríkiskerfi. Á milli þeirra Ólafs og Halldórs ríkti Steingrímur Hermannsson sem formaður flokksins og tókst að gefa flokknum nútímalegt yfirbragð og marka honum hófsama stefnu hins víðsýna og pragmatíska miðflokks. Það varð til að höfða til þéttbýlisfylgis sem nú virðist gufað upp að mestu, ekki síst í kjölfar illskiljanlegrar upphefðar Árna Magnússonar á kostnað Sivjar Friðleifsdóttur. Nú er Framsóknarflokkurinn kannski fyrst og fremst hinn pólitíski armur Landsvirkjunar og greinir sig að öðru leyti í fáu frá Sjálfstæðisflokknum – lætur íslenska þjóð meira að segja skrifa upp á feigðarflan Bandaríkjamanna í Írak. Eftir því sem yfirbragð hins víðsýna miðflokks dvínar - enda þéttbýlisfylgi flokksins með minnsta móti - hefur Halldór Ásgrímsson leitast við að endurnýja sjálfsmynd Framsóknarmanna sem fallin sé til þess að blása þeim kapp í kinn. Og leitar þá í klassíkina. Hann hefur með öðrum orðum endurnýjað hina óvenjulegu pólitísku hugsun Ólafs með sérlega kraftmiklum hætti og gefur okkur þar með væntanlega forsmekkinn að því hvers við megum vænta af forsætisráðherratíð hans. Eða kann einhver að útskýra fyrir okkur hverjar ályktanir okkur er ætlað að draga af hinum skorinorðu ræðum Halldórs um Evrópusambandið? Er hann á móti því? Er hann með því? Eigum við að ganga í það? Er það útilokað? Já já. Nei nei. Í fyrstu ræðunni sem hann hélt á Akureyri fór hann hörðum orðum um sjávarútvegsstefnu sambandsins, hljómaði beinlínis eins og Vinstri-grænn, notaði gamalkunnugt hugtak úr þeim herbúðum sem svo sannarlega var óvænt að sjá frá þessum manni sem til þessa hefur látið sér nægja að vera í "hópi þeirra viljugu". Hann notaði orðið "Nýlendustefna", og maður bjóst allt eins við að heyra hann næst fara með Land þjóð og tunga eftir Snorra Hjartarson eins og um árabil tíðkaðist í ræðum vinstri manna gegn Evrópusambandinu – að minnsta kosti útilokaði hann með öllu aðild að Evrópusambandinu að óbreyttri sjávarútvegsstefnu. Næst spyrst til hans í Borgarnesi og hann er alveg ákveðinn og á Akureyri og aftur er ræða hans fyrsta frétt í fréttatímum - nema nú kemur frá honum sá boðskapur að ekki beri að útiloka aðild – það sé "ábyrgðarleysi". Hins vegar telur hann að Framsóknarflokkurinn eigi að leiða umræðurnar um þessi málefni, hér eftir sem hingað til. Já já – nei nei. Eða kannski: eða þannig. Þegar öllu er á botninn hvolft þá má segja að ráðherrann fari þarna nærri því að túlka afstöðu okkar margra til aðildar að Evrópusambandinu. Einn daginn finnst manni það hálf niðurlægjandi að vera ekki með og fáránlegt að taka tuðandi við öllum þessum reglugerðum frá Brussel án þess að hafa neitt um þær að segja - en næsta dag finnst manni reisn yfir því að standa keikur og utan þess klúbbs með miklu meiri hagvöxt en þeir, og eðlilegt að lög séu sett sem allra næst því fólki sem þau eiga að ná til. Einn daginn skilur maður ekki hvers vegna togarar frá Evrópusambandinu mega ekki allt eins veiða fiskinn hér við land og togarar frá Samherja sem keypt hafa óveidda fiskinn í sjónum af mönnum sem áttu hann aldrei – en næsta dag finnst manni það ógnvekjandi tilhugsun að heimsmeistarar Evrópusambandsins í landbúnaðarklúðri taki að sér stjórn fiskveiða hér við land... Þetta snýst líka um óáþreifanlegri hluti, sjálfsmynd okkar sem hér búum, nauðsyn okkar á því að tengjast stærri heildum og fjarlægjast hinni stórhættulegu Bandaríkjastjórn, stolt okkar og sjálfsvirðingu sem kannski verður betur nærð innan sambandsins en tuðandi utan þess – kannski ekki. Þetta er flókið mál og í rauninni ánægjuleg nýbreytni að fá forsætisráðherra sem hugsar á jafn þversagnakenndan hátt um það og við hin.
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun
Erum við að byggja orlofsbúðir fyrir útsendara skipulagðra glæpasamtaka hér á landi? Davíð Bergmann Skoðun