Reyðarfjörður og Hérað 7. desember 2004 00:01 Við hvað vilja Íslendingar eiginlega starfa? Þetta er spurning sem leitar á hugann þessa dagana vegna vegna auglýsinga um atvinnu á Austurlandi. Fjarðarál hefur auglýst eftir starfsmönnum til að vinna við byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði en fáir hafa gefið sig fram til starfa þar. Um er að ræða margskonar störf við væntanlegt álver á staðnum og er allt útlit fyrir að mikill meirihluti þeirra sem munu starfa við uppbyggingu álversins verði útlendingar. Þá hefur einnig verið auglýst eftir starfsfólki í stöður stjórnenda hjá hinu nýja sveitarfélagi á Fljótsdalshéraði. Alls voru stöðurnar sjö sem um var að ræða á Egilsstöðum og barst alls 71 umsókn um þær allar eða að meðaltali tíu um hverja stöðu. Þetta er töluvert annað en niðri á Reyðarfirði. Ástæðan fyrir þessu er áreiðanlega ekki sú að annarsvegar sé um að ræða stöður uppi á Héraði en hinsvegar niðri á fjörðum heldur er annarsvegar um að ræða stjórnunarstöður í upprennandi sveitarfélagi, en hinsvegar tímabundna byggingarvinnu við að reisa stærsta álver landsins. Þessi dæmi af Austurlandi þurfa kannski ekki að koma á óvart, því það er alllangt síðan ákveðnar starfsgreinar hafa þurft meira og minna að treysta á erlent vinnualfl. Íslendingar fást hreinlega ekki nema að litlu leyti til ákveðinna starfa, og yfirleitt eru það láglaunastörf sem um er að ræða. Það er orðið mjög áberandi hér á höfuðborgarsvæðinu hve margir útlendingar starfa við ýmis þjónustustörf innan heilbrigðisgeirans. Þetta fólk vinnur áreiðanlega störf sín af dugnaði og samvinskusemi, en það virðist hinsvegar ekki vera í neinum tengslum við nánasta umhverfi sitt og á bágt með að tjá sig og erfitt fyrir aðra að skilja það. Þetta er vandi sem þarf að ráða bót á og oft hefur verið til umræðu á undanförnum misserum. Þetta hlýtur að vera bagalegt víða á sjúkrastofnunum, þar sem mikilvægara er kannski að tala við aldrað fólk og sjúkt en að gefa því pillur. Virkjanaframkvæmdirnar á Austurlandi hafa hingað til ekki haft mikið aðdráttarafl fyrir Íslendinga í atvinnuleit. Að vísu starfar fjöldi Íslendinga hjá rótgrónum íslenskum verktakafyrirtækjum á virkjanasvæðinu, en því er ekki að heilsa hjá aðalverktakanum. Hjá honum fór margt úrskeiðis varðandi starfsmannamál og ekki síst aðbúnað starfsmanna i upphafi verktímabils, en nú virðist sem þeim hafi tekist að sigrast á byrjunarerfiðleikum og reyndar tími til kominn. Umræðan um starfsmenn Impregilo við Kárahnjúka getur hafa valdið því að minni áhugi er fyrir störfum hjá Fjarðaráli á Reyðarfirði en ráð var fyrir gert. Þar virðist þó sem menn hafi mikið lært af mistökunum við Kárahnjúka, og einnig bera að hafa í huga að allt aðrar starfsreglur virðast vera hjá risafyrirtækinu Bechtel en Ítölunum. Þótt mikið sé lagt upp úr aðbúnaði á Reyðarfirði, hlýtur það þó að setja strik í reikninginn, ef flytja þarf inn hundruð erlendra starfsmanna þangað þann tíma sem framkvæmdir við álverið standa yfir. Því verður ekki á móti mælt að þetta getur haft ýmist félagsleg áhrif á umhverfið, og þá kemur til kasta bæjaryfirvalda í Fjarðarbyggð. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Kári Jónasson Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Við hvað vilja Íslendingar eiginlega starfa? Þetta er spurning sem leitar á hugann þessa dagana vegna vegna auglýsinga um atvinnu á Austurlandi. Fjarðarál hefur auglýst eftir starfsmönnum til að vinna við byggingu álvers Alcoa á Reyðarfirði en fáir hafa gefið sig fram til starfa þar. Um er að ræða margskonar störf við væntanlegt álver á staðnum og er allt útlit fyrir að mikill meirihluti þeirra sem munu starfa við uppbyggingu álversins verði útlendingar. Þá hefur einnig verið auglýst eftir starfsfólki í stöður stjórnenda hjá hinu nýja sveitarfélagi á Fljótsdalshéraði. Alls voru stöðurnar sjö sem um var að ræða á Egilsstöðum og barst alls 71 umsókn um þær allar eða að meðaltali tíu um hverja stöðu. Þetta er töluvert annað en niðri á Reyðarfirði. Ástæðan fyrir þessu er áreiðanlega ekki sú að annarsvegar sé um að ræða stöður uppi á Héraði en hinsvegar niðri á fjörðum heldur er annarsvegar um að ræða stjórnunarstöður í upprennandi sveitarfélagi, en hinsvegar tímabundna byggingarvinnu við að reisa stærsta álver landsins. Þessi dæmi af Austurlandi þurfa kannski ekki að koma á óvart, því það er alllangt síðan ákveðnar starfsgreinar hafa þurft meira og minna að treysta á erlent vinnualfl. Íslendingar fást hreinlega ekki nema að litlu leyti til ákveðinna starfa, og yfirleitt eru það láglaunastörf sem um er að ræða. Það er orðið mjög áberandi hér á höfuðborgarsvæðinu hve margir útlendingar starfa við ýmis þjónustustörf innan heilbrigðisgeirans. Þetta fólk vinnur áreiðanlega störf sín af dugnaði og samvinskusemi, en það virðist hinsvegar ekki vera í neinum tengslum við nánasta umhverfi sitt og á bágt með að tjá sig og erfitt fyrir aðra að skilja það. Þetta er vandi sem þarf að ráða bót á og oft hefur verið til umræðu á undanförnum misserum. Þetta hlýtur að vera bagalegt víða á sjúkrastofnunum, þar sem mikilvægara er kannski að tala við aldrað fólk og sjúkt en að gefa því pillur. Virkjanaframkvæmdirnar á Austurlandi hafa hingað til ekki haft mikið aðdráttarafl fyrir Íslendinga í atvinnuleit. Að vísu starfar fjöldi Íslendinga hjá rótgrónum íslenskum verktakafyrirtækjum á virkjanasvæðinu, en því er ekki að heilsa hjá aðalverktakanum. Hjá honum fór margt úrskeiðis varðandi starfsmannamál og ekki síst aðbúnað starfsmanna i upphafi verktímabils, en nú virðist sem þeim hafi tekist að sigrast á byrjunarerfiðleikum og reyndar tími til kominn. Umræðan um starfsmenn Impregilo við Kárahnjúka getur hafa valdið því að minni áhugi er fyrir störfum hjá Fjarðaráli á Reyðarfirði en ráð var fyrir gert. Þar virðist þó sem menn hafi mikið lært af mistökunum við Kárahnjúka, og einnig bera að hafa í huga að allt aðrar starfsreglur virðast vera hjá risafyrirtækinu Bechtel en Ítölunum. Þótt mikið sé lagt upp úr aðbúnaði á Reyðarfirði, hlýtur það þó að setja strik í reikninginn, ef flytja þarf inn hundruð erlendra starfsmanna þangað þann tíma sem framkvæmdir við álverið standa yfir. Því verður ekki á móti mælt að þetta getur haft ýmist félagsleg áhrif á umhverfið, og þá kemur til kasta bæjaryfirvalda í Fjarðarbyggð.