Samfélag samsæranna 18. nóvember 2005 06:00 Því hefur stundum verið haldið fram að þjóðfélagsumræðan öll, ekki einvörðungu pólitíkin, hafi á síðasta áratug eða svo mótast af sterkum foringjastjórnmálum og skilgreindum skotgröfum þar sem menn eru ýmist í einum herbúðum eða öðrum. Eru annaðhvort með einhverjum eða á móti honum. Eru annaðhvort góðir eða vondir. Í slíku andrúmi getur verið erfitt að vera með grámyglulega hálfvelgju eða efasemdir. Allt er annað hvort svart eða hvítt – og ekkert rými fyrir gráa tóna í litakorti skoðananna. Smám saman elur þetta af sér almenna tortryggni og ofsóknaræði – enda gjalda menn þess iðulega fari þeir á einhvern hátt út af línunni. Samsæriskenningar og ásakanir um hitt og þetta einkenna þjóðfélagsumræðuna, gengisfella hana og breyta í sápuóperur í stíl absúrdleikhússins. Öll umræða verður að gjammandi kappræðu og fjöldi þeirra sem hugsanlega hefðu blandað sér í hana hverfur frá með kalið hjarta. Ef ekki væri fyrir hina miklu og raunverulegu hagsmuni og völd sem verið er að spila með, tæki því varla að eyða orðum á þetta ástand. Í vikunni birtist okkur gott dæmi um íslenska þjóðfélagsumræðu. Dæmi sem dregur fram það nöturlega ástand sem í raun ríkir í landinu eftir rúman áratug foringjastjórnmála. Þetta dæmi kom upp í tengslum við kynningu á Jónsbók Einars Kárasonar um Jón Ólafsson í Skífunni. Kastljós Sjónvarps hugðist birta viðtal við Jón þar sem hann er m.a. að "uppljóstra" um ofsóknir á hendur sér og brot af því var sýnt í fréttum. Síðan þegar kemur að því að sýna viðtalið sjálft í Kastljósþættinum koma upp tæknilegir erfiðleikar sem valda því að menn ná ekki samræmi milli hljóðs og myndar og ákveðið er að bíða með útsendingu viðtalsins. Í siðmenntuðu lýðræðisríki með sjálfstæða fjölmiðla hefði þetta tæplega vakið mikla athygli og áhorfendur og alþjóð hugsað eitthvað á þá leið að þetta væri einstök óheppni fyrir viðkomandi sjónvarpsstöð – og ekki síst fyrir þá sem unnu tæknivinnuna, því það er almennt ætlast til þess að alvöru sjónvarpsstöðvar geti sýnt það efni sem þær hafa náð að auglýsa upp eins og hér var gert. En á Íslandi, mótuðu af áratug foringjastjórnmála, vakti þetta allt önnur viðbrögð. Enginn virtist taka það trúanlegt að vandamálið væri af tæknilegum toga, heldur þótti mun líklegra að "bak við tjöldin" hefði verið gripið í taumana og útsending viðtalsins einfaldlega stöðvuð. Ekki nóg með að almenningur á kaffistofum landsins hafi fyrst og fremst velt fyrir sér hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði komið beint að málinu eða ekki, heldur voru fjölmiðlar fullir tortryggni líka. Meira að segja Morgunblaðið sá ástæðu til að yfirheyra Kastljósstjórann um hvort það væru í raun og veru "tæknilegar ástæður" fyrir því að birta ekki viðtalið og láta stjórann jafnframt lýsa því yfir að fyrr myndi hann segja af sér en sætta sig við að þátturinn yrði ritskoðaður af aðilum úti í bæ. Viðtalið var svo eins og alkunna er sent út daginn eftir, og þá líka á netinu og óklippt – en ástæða þótti einmitt til að margendurtaka að netútgáfan væri óklippt, því margir virtust hreinlega ekki trúa því að viðtalið hafi ekki verið ritskoðað! Það er full ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvað þetta segir okkur um íslenskt lýðræði og borgaralegt samfélag. Hvers konar þjóðfélag bregst við tæknilegri bilun í sjónvarpi á þennan hátt? Standi menn upp úr pólitísku skotgröfunum liggur í augum uppi að ástandið er orðið sjúkt! Ekki skánar þetta mál þegar skoðuð er fréttamúsin, sem fæddist eftir þessa jóðsótt Kastljósfílsins. Stóra fréttin snerist um að skattrannsóknarstjóri átti að hafa fengið aukafjárveitingu tvö ár í röð gegn því að taka þá Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson til skattrannsóknar. Vissulega stórmál ef satt væri. En ásakana- og fullyrðingastíllinn sem fest hefur rætur í umræðunni – og einkennist einmitt á köflum m.a. af svona mútuáskökunum – gengur aftur enn einu sinni. Málið breytist í grátbroslegt grín þegar í ljós kemur að ásakanir byggja alfarið á því að einhver maður á að hafa heyrt skattrannsóknarstjóra segja frá þessu í gleðskap eða á kennderíi. Að þessu sinni koma þó hvorki við sögu London né vínber. Sápuóperan fullkomnast síðan þegar málatilbúnaðurinn, ef hægt er að kalla þetta það, er hrakinn í Morgunblaðinu með því að blaðið upplýsir sigri hrósandi að skattrannsóknarstjórinn hafi verið bindindismaður í 30 ár! Eitt helsta afrek foringjastjórnmálanna hefur verið að framleiða pólitískar sápuóperur sem henta vel fyrir Spaugstofuþætti, enda hefur fréttastofa Spaugsstofunnar iðulega verið með réttustu og hreinskilnustu fréttaskýringarnar allra fjölmiðla um pólitíkina. Spyrja má hvort ekki sé kominn tími á breyttan stíl í íslenskum stjórnmálum? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birgir Guðmundsson Skoðanir Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Því hefur stundum verið haldið fram að þjóðfélagsumræðan öll, ekki einvörðungu pólitíkin, hafi á síðasta áratug eða svo mótast af sterkum foringjastjórnmálum og skilgreindum skotgröfum þar sem menn eru ýmist í einum herbúðum eða öðrum. Eru annaðhvort með einhverjum eða á móti honum. Eru annaðhvort góðir eða vondir. Í slíku andrúmi getur verið erfitt að vera með grámyglulega hálfvelgju eða efasemdir. Allt er annað hvort svart eða hvítt – og ekkert rými fyrir gráa tóna í litakorti skoðananna. Smám saman elur þetta af sér almenna tortryggni og ofsóknaræði – enda gjalda menn þess iðulega fari þeir á einhvern hátt út af línunni. Samsæriskenningar og ásakanir um hitt og þetta einkenna þjóðfélagsumræðuna, gengisfella hana og breyta í sápuóperur í stíl absúrdleikhússins. Öll umræða verður að gjammandi kappræðu og fjöldi þeirra sem hugsanlega hefðu blandað sér í hana hverfur frá með kalið hjarta. Ef ekki væri fyrir hina miklu og raunverulegu hagsmuni og völd sem verið er að spila með, tæki því varla að eyða orðum á þetta ástand. Í vikunni birtist okkur gott dæmi um íslenska þjóðfélagsumræðu. Dæmi sem dregur fram það nöturlega ástand sem í raun ríkir í landinu eftir rúman áratug foringjastjórnmála. Þetta dæmi kom upp í tengslum við kynningu á Jónsbók Einars Kárasonar um Jón Ólafsson í Skífunni. Kastljós Sjónvarps hugðist birta viðtal við Jón þar sem hann er m.a. að "uppljóstra" um ofsóknir á hendur sér og brot af því var sýnt í fréttum. Síðan þegar kemur að því að sýna viðtalið sjálft í Kastljósþættinum koma upp tæknilegir erfiðleikar sem valda því að menn ná ekki samræmi milli hljóðs og myndar og ákveðið er að bíða með útsendingu viðtalsins. Í siðmenntuðu lýðræðisríki með sjálfstæða fjölmiðla hefði þetta tæplega vakið mikla athygli og áhorfendur og alþjóð hugsað eitthvað á þá leið að þetta væri einstök óheppni fyrir viðkomandi sjónvarpsstöð – og ekki síst fyrir þá sem unnu tæknivinnuna, því það er almennt ætlast til þess að alvöru sjónvarpsstöðvar geti sýnt það efni sem þær hafa náð að auglýsa upp eins og hér var gert. En á Íslandi, mótuðu af áratug foringjastjórnmála, vakti þetta allt önnur viðbrögð. Enginn virtist taka það trúanlegt að vandamálið væri af tæknilegum toga, heldur þótti mun líklegra að "bak við tjöldin" hefði verið gripið í taumana og útsending viðtalsins einfaldlega stöðvuð. Ekki nóg með að almenningur á kaffistofum landsins hafi fyrst og fremst velt fyrir sér hvort fyrrverandi forsætisráðherra hefði komið beint að málinu eða ekki, heldur voru fjölmiðlar fullir tortryggni líka. Meira að segja Morgunblaðið sá ástæðu til að yfirheyra Kastljósstjórann um hvort það væru í raun og veru "tæknilegar ástæður" fyrir því að birta ekki viðtalið og láta stjórann jafnframt lýsa því yfir að fyrr myndi hann segja af sér en sætta sig við að þátturinn yrði ritskoðaður af aðilum úti í bæ. Viðtalið var svo eins og alkunna er sent út daginn eftir, og þá líka á netinu og óklippt – en ástæða þótti einmitt til að margendurtaka að netútgáfan væri óklippt, því margir virtust hreinlega ekki trúa því að viðtalið hafi ekki verið ritskoðað! Það er full ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvað þetta segir okkur um íslenskt lýðræði og borgaralegt samfélag. Hvers konar þjóðfélag bregst við tæknilegri bilun í sjónvarpi á þennan hátt? Standi menn upp úr pólitísku skotgröfunum liggur í augum uppi að ástandið er orðið sjúkt! Ekki skánar þetta mál þegar skoðuð er fréttamúsin, sem fæddist eftir þessa jóðsótt Kastljósfílsins. Stóra fréttin snerist um að skattrannsóknarstjóri átti að hafa fengið aukafjárveitingu tvö ár í röð gegn því að taka þá Jón Ólafsson og Jón Ásgeir Jóhannesson til skattrannsóknar. Vissulega stórmál ef satt væri. En ásakana- og fullyrðingastíllinn sem fest hefur rætur í umræðunni – og einkennist einmitt á köflum m.a. af svona mútuáskökunum – gengur aftur enn einu sinni. Málið breytist í grátbroslegt grín þegar í ljós kemur að ásakanir byggja alfarið á því að einhver maður á að hafa heyrt skattrannsóknarstjóra segja frá þessu í gleðskap eða á kennderíi. Að þessu sinni koma þó hvorki við sögu London né vínber. Sápuóperan fullkomnast síðan þegar málatilbúnaðurinn, ef hægt er að kalla þetta það, er hrakinn í Morgunblaðinu með því að blaðið upplýsir sigri hrósandi að skattrannsóknarstjórinn hafi verið bindindismaður í 30 ár! Eitt helsta afrek foringjastjórnmálanna hefur verið að framleiða pólitískar sápuóperur sem henta vel fyrir Spaugstofuþætti, enda hefur fréttastofa Spaugsstofunnar iðulega verið með réttustu og hreinskilnustu fréttaskýringarnar allra fjölmiðla um pólitíkina. Spyrja má hvort ekki sé kominn tími á breyttan stíl í íslenskum stjórnmálum?