Þær eru vanmetnar 30. maí 2005 00:01 Það voru athyglisverð orð sem rektorinn á Bifröst viðhafði á laugardag þegar hann ávarpaði nemendur og gesti við skólaslit. Hann gerði launamun karla og kvenna að einu aðalatriðinu í skólaslitaræðu sinni og benti þar á sláandi staðreyndir um launamuninn. Runólfur Ágústsson nefndi það fyrst að námið á Bifröst hefur mikil efnahagsleg áhrif fyrir þá sem stunda þar nám. Konur í hópi þeirra sem útskrifast rúmlega tvöfalda laun sín með námi við skólann og laun karla hækka að meðaltali um 80 af hundraði. Hér ber þess að geta að margir þeirra sem hefja nám á Bifröst hafa áður verið virkir þátttakendur í atvinnulífinu, og þannig öðlast dýrmæta reynslu áður en þeir setjast að nýju á skólabekk. En þó að laun kvennanna hækki töluvert með náminu á Bifröst, fá þær samt mun lægri laun á vinnumarkaði en karlar sem útskrifast þaðan. Gerðar hafa verið sérstakar kannanir á Bifröst á undanförnum árum á kjörum þeirra sem útskrifast þaðan, og þetta er rauði þráðurinn í þeim könnunum. Um þetta sagði Bifrastarrektor: "Staðreyndin meðal nýútskrifaðra viðskipta- og lögfræðinga virðist vera þessi óhugnanlegi kynbundni launamunur. Munur sem á sér engin sjáanleg rök önnur en vanmat atvinnulífsins á konum. Kynbundinn launamunur er smánarblettur á íslensku atvinnulífi. Svo einfalt er það! Þetta misrétti er ólíðandi í siðuðu samfélagi." Síðar í skólaslitaræðunni sagðist hann skammast sín fyrir þessi skilaboð sem fælust í niðurstöðum könnunarinnar. Það er gömul saga og ný að konur hafa ekki fram til þessa náð jafnmiklum frama í atvinnulífinu og karlar. Þær eru teljandi á fingrum þær konur sem gegna lykilstöðum í þjóðfélaginu, þrátt fyrir allt talið um jafnrétti, og þrátt fyrir að konur séu líklega í meirihluta í háskólum landsins. Við skólaslitin á Bifröst á laugardag var undirritaður samningur milli félagsmálaráðuneytisins og háskólans í Grábrókarhrauni um stofnun rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála. Það verður verðugt verkefni þessarar stofnunar að komast til botns í hinu eilífa umræðuefni um launamun kynjanna. Er við atvinnulífið að sakast, konurnar sjálfar eða standa karlar svo þétt saman um stöðu sína að konurnar komast ekki að? Þetta er meðal þeirra spurninga sem þarf að fá svör við. Rektorinn á Bifröst hefur hér hreyft við athyglisverðu máli, sem kanna þarf nánar. Reyndar hefur uppbyggingin í Grábrókarhrauninu verið svo ör og mikil á undanförnum árum að mörgum hefur þótt nóg um. Það er ekki aðeins að þar hafi fjölgað nemendum og húsum, heldur teygir starfsemin sig nú í æ ríkari mæli til annarra landa, og er undirskrft samstarfssamningsins við risaháskóla í Kína á dögunum til merkis um það. Bifrastarskólinn hefur sannað það að háskóli þarf ekki endilega að vera í þéttbýli, og reyndar var það vitað áður, því þarna blómstraði Samvinnuskólinn á sínum tíma, og þeir eru ekki ófáir nemendurnir frá honum sem hafa lagt íslensku samfélagi gott lið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Kári Jónasson Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Það voru athyglisverð orð sem rektorinn á Bifröst viðhafði á laugardag þegar hann ávarpaði nemendur og gesti við skólaslit. Hann gerði launamun karla og kvenna að einu aðalatriðinu í skólaslitaræðu sinni og benti þar á sláandi staðreyndir um launamuninn. Runólfur Ágústsson nefndi það fyrst að námið á Bifröst hefur mikil efnahagsleg áhrif fyrir þá sem stunda þar nám. Konur í hópi þeirra sem útskrifast rúmlega tvöfalda laun sín með námi við skólann og laun karla hækka að meðaltali um 80 af hundraði. Hér ber þess að geta að margir þeirra sem hefja nám á Bifröst hafa áður verið virkir þátttakendur í atvinnulífinu, og þannig öðlast dýrmæta reynslu áður en þeir setjast að nýju á skólabekk. En þó að laun kvennanna hækki töluvert með náminu á Bifröst, fá þær samt mun lægri laun á vinnumarkaði en karlar sem útskrifast þaðan. Gerðar hafa verið sérstakar kannanir á Bifröst á undanförnum árum á kjörum þeirra sem útskrifast þaðan, og þetta er rauði þráðurinn í þeim könnunum. Um þetta sagði Bifrastarrektor: "Staðreyndin meðal nýútskrifaðra viðskipta- og lögfræðinga virðist vera þessi óhugnanlegi kynbundni launamunur. Munur sem á sér engin sjáanleg rök önnur en vanmat atvinnulífsins á konum. Kynbundinn launamunur er smánarblettur á íslensku atvinnulífi. Svo einfalt er það! Þetta misrétti er ólíðandi í siðuðu samfélagi." Síðar í skólaslitaræðunni sagðist hann skammast sín fyrir þessi skilaboð sem fælust í niðurstöðum könnunarinnar. Það er gömul saga og ný að konur hafa ekki fram til þessa náð jafnmiklum frama í atvinnulífinu og karlar. Þær eru teljandi á fingrum þær konur sem gegna lykilstöðum í þjóðfélaginu, þrátt fyrir allt talið um jafnrétti, og þrátt fyrir að konur séu líklega í meirihluta í háskólum landsins. Við skólaslitin á Bifröst á laugardag var undirritaður samningur milli félagsmálaráðuneytisins og háskólans í Grábrókarhrauni um stofnun rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála. Það verður verðugt verkefni þessarar stofnunar að komast til botns í hinu eilífa umræðuefni um launamun kynjanna. Er við atvinnulífið að sakast, konurnar sjálfar eða standa karlar svo þétt saman um stöðu sína að konurnar komast ekki að? Þetta er meðal þeirra spurninga sem þarf að fá svör við. Rektorinn á Bifröst hefur hér hreyft við athyglisverðu máli, sem kanna þarf nánar. Reyndar hefur uppbyggingin í Grábrókarhrauninu verið svo ör og mikil á undanförnum árum að mörgum hefur þótt nóg um. Það er ekki aðeins að þar hafi fjölgað nemendum og húsum, heldur teygir starfsemin sig nú í æ ríkari mæli til annarra landa, og er undirskrft samstarfssamningsins við risaháskóla í Kína á dögunum til merkis um það. Bifrastarskólinn hefur sannað það að háskóli þarf ekki endilega að vera í þéttbýli, og reyndar var það vitað áður, því þarna blómstraði Samvinnuskólinn á sínum tíma, og þeir eru ekki ófáir nemendurnir frá honum sem hafa lagt íslensku samfélagi gott lið.