Lifi málfrelsið – leyfum þeim að móðgast 3. febrúar 2006 13:07 Þessi pistill birtist í Íslandi í dag 2. febrúar 2006, hér er hann í aðeins lengri útgáfu. Sökum þess að hann er saminn fyrir sjónvarp má þarna finna brot úr fyrri skrifum mínum um þetta mál. Þeir sem telja að Jótlandspósturinn - og danska þjóðin - eigi að beygja sig í duftið fyrir mótmælum í hinum íslamska heimi eru í raun að mæla með stórfelldri ritskoðun. Þessi afstaða lýsir furðulegu skilningleysi hinu opna samfélagi sem við búum í og hugmyndunum sem það byggir á. Tjáningarfrelsið heimilar mönnum lika að vera ósmekklegir, leiðinlegir, dónalegir. Og jú, það er alltaf einhver sem er sem er tilbúinn að móðgast, hvort sem það er af einlægum hug eða vegna skinhelgi. Samkvæmt þessu á hinn móðgaði að ráða ferðinni. Þetta er eindregin stefna í átt til ritskoðunar, sjálfsritskoðunar og til þess að setja upp lögreglueftirlit með hugmyndum og hugsunum fólks. Ég ætla ekki að nefna allt klámið sem flýtur um samfélagið, ljótt orðbragðið, ofbeldið í sjónvarpinu. Allt er það særandi fyrir margt fólk. Stundum er ég feginn að amma mín og afi eru ekki lengur á lífi og þurfa ekki að horfa upp allan óhroðann. Lausnin er hins vegar ekki að setja lög eða beita lögreglunni, heldur að skapa samfélag sem setur sér ögn hærri siðferðismarkmið. --- --- --- Tölum aðeins um kristnina. Það er heil bókmenntagrein að atast í kristinni trú. Hún hefur verið tekin í sundur í öllum tegundum af gríni, meinlausu og andstyggilegu, allt frá meyfæðingunni til krossdauðans og heilagrar þrenningar. Við höfum Voltaire, Anatole France, Mikael Bulgakov, Nikos Kazantzakis, – já, og Monty Python. Meira að segja kaþólska kirkjan er búin að gefast upp á að hafa lista þar sem svona verk eru bönnuð. Þegar biskup Íslands reyndi að fá Spaugstofunni refsað fyrir guðlast um árið braust út almennur hlátur. Það eru ennþá til lög hér sem segja að ekki megi spotta trúarbrögð, en þau eru óvirk. Ættum við kannski að endurvekja þau og láta þau bara gilda um múslima? Þegar Salman Rushdie fjallaði á svipaðan hátt um íslam gekk allt af göflunum. Hið sama má segja um pakistanska skáldkonu, Taslimu Nasreen, sem var í bráðri lífshættu í mörg ár vegna bókar sem hún skrifaði um konur og íslam. Á sínum tíma vildu margir kenna Rushdie sjálfum um, sögðu að hann hefði grafið sína eigin gröf. Sama viðhorf heyrir maður nú gagnvart danska blaðinu. --- --- --- Hér á Vesturlöndum leggjum við ekki bann við umfjöllun um hugmyndir. Hins vegar er nokkuð útbreitt samkomulag um að megi takmarka tjáningarfrelsið ef það beinist gegn persónu manna, hvernig fólk er, hvort það er rauðhært, fatlað eða hörundsdökkt. Það má jafnvel segja að sé ákveðin tilhneiging til að ganga of langt í þá átt í nafni félagslegs rétttrúnaðar. En trúarbrögð eru hugmyndir. Þær á að vera hægt að salla niður ef maður vill. Við eigum að geta talað alveg óþvingað um afturhaldið í páfanum, hvað okkur þykja sumir kristnir söfnuðir í Ameríku fáránlegir, um stéttaskiptinguna sem býr í hindúasið, kvennakúgunina í íslam. Rétt eins og mér er heimilt að boða kristna trú eða íslam, er mér frjálst að segja að Biblían eða Kóraninn séu lygi og þvættingur. Við ofsækjum fólk ekki vegna trúarbragða, en það er leyfilegt að gagnrýna þau, hæða þau, móðga þau ef verða vill. Líka þó það sé gert með ósmekklegum hætti. Þetta er hægt í vegna þess að í samfélagi okkar tókst - á löngum tíma og með miklum erfiðismunum - að skilja á milli hins veraldlega sviðs og hins trúarlega. Ég held að fæstir í Evrópu vilji snúa aftur til gamla tímans - ekki einu sinni hinir trúuðu. --- --- --- Það er mikið verið að fjalla um múslima sem hafa móðgast. Í raun er notkun þessa orðs, múslimi, vandræðaleg. Hér á landi myndu menn fyrst líta á sig sem Íslandinga, svo sem íbúa einhvers bæjarfélags, síðan kristna menn eða eitthvað annað. Trúin er að miklu leyti einkamál; í löndum múslima eru trúarbrögðin, pólitíkin og hið opinbera líf allt í einum graut. Þess vegna er hægt að gera kröfu um að ríkisstjórn biðjist afsökunar á því sem dagblað hefur gert. Samkvæmt hugmyndum okkar um opið og frjálst samfélag er það einfaldlega ekki hægt. Ég sem kristinn maður áskil mér fullan rétt til að móðgast ekki þótt gert sé grín að kristinni trú. Það breytir nákvæmlega engu um trú mína. Þeir móðgast yfirleitt sem vilja móðgast. Maður hefur líka sterklega á tilfinningunni að í múslimalöndum sé vandamálið eitthvað allt annað en teikningarnar úr danska blaðinu - sem nota bene eru teiknaðar af mönnum sem játa ekki íslam, beygja sig ekki undir trúarsetningar múslima. Það þarf að skoða betur hverjir hafa hag af múgæsingunum, hvaða tilgangi þær þjóna. Þegar morðingjar eins og Shamil Basayev í Tsétséníu eru farnir að hafa í hótunum við borgara á Norðurlöndunum verður maður hugsi. Er það ekki einmitt þetta ofstæki sem kemur óorði á íslam - fremur en skopmyndir? Maður hefur líka á tilfinningunni að þeir sem mótmæla hvað ákafast þyrftu ekki að kemba hærurnar ef þeir létu svona gegn stjórnvöldum í heimalandi sínu. Þá er auðveldara að beina gremjunni að smáríki á norðurhjaranum. --- --- --- En svona úr því verið er að tala um að hlífa viðkvæmum tilfinningum: Danskir biskupar benda á að það sé móðgun við kristna trú þegar danski fáninn er brenndur, krossinn á Dannebrog sé jú heilagasta trúartákn í kristindómnum. Kannski hafa menn ekki pælt nóg í þessu, við erum líka með kross í íslenska fánanum. Er kannski bráðum ástæða til að breyta um fána? Svona til að móðga ekki neinn í fjölmenningarsamfélaginu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Þessi pistill birtist í Íslandi í dag 2. febrúar 2006, hér er hann í aðeins lengri útgáfu. Sökum þess að hann er saminn fyrir sjónvarp má þarna finna brot úr fyrri skrifum mínum um þetta mál. Þeir sem telja að Jótlandspósturinn - og danska þjóðin - eigi að beygja sig í duftið fyrir mótmælum í hinum íslamska heimi eru í raun að mæla með stórfelldri ritskoðun. Þessi afstaða lýsir furðulegu skilningleysi hinu opna samfélagi sem við búum í og hugmyndunum sem það byggir á. Tjáningarfrelsið heimilar mönnum lika að vera ósmekklegir, leiðinlegir, dónalegir. Og jú, það er alltaf einhver sem er sem er tilbúinn að móðgast, hvort sem það er af einlægum hug eða vegna skinhelgi. Samkvæmt þessu á hinn móðgaði að ráða ferðinni. Þetta er eindregin stefna í átt til ritskoðunar, sjálfsritskoðunar og til þess að setja upp lögreglueftirlit með hugmyndum og hugsunum fólks. Ég ætla ekki að nefna allt klámið sem flýtur um samfélagið, ljótt orðbragðið, ofbeldið í sjónvarpinu. Allt er það særandi fyrir margt fólk. Stundum er ég feginn að amma mín og afi eru ekki lengur á lífi og þurfa ekki að horfa upp allan óhroðann. Lausnin er hins vegar ekki að setja lög eða beita lögreglunni, heldur að skapa samfélag sem setur sér ögn hærri siðferðismarkmið. --- --- --- Tölum aðeins um kristnina. Það er heil bókmenntagrein að atast í kristinni trú. Hún hefur verið tekin í sundur í öllum tegundum af gríni, meinlausu og andstyggilegu, allt frá meyfæðingunni til krossdauðans og heilagrar þrenningar. Við höfum Voltaire, Anatole France, Mikael Bulgakov, Nikos Kazantzakis, – já, og Monty Python. Meira að segja kaþólska kirkjan er búin að gefast upp á að hafa lista þar sem svona verk eru bönnuð. Þegar biskup Íslands reyndi að fá Spaugstofunni refsað fyrir guðlast um árið braust út almennur hlátur. Það eru ennþá til lög hér sem segja að ekki megi spotta trúarbrögð, en þau eru óvirk. Ættum við kannski að endurvekja þau og láta þau bara gilda um múslima? Þegar Salman Rushdie fjallaði á svipaðan hátt um íslam gekk allt af göflunum. Hið sama má segja um pakistanska skáldkonu, Taslimu Nasreen, sem var í bráðri lífshættu í mörg ár vegna bókar sem hún skrifaði um konur og íslam. Á sínum tíma vildu margir kenna Rushdie sjálfum um, sögðu að hann hefði grafið sína eigin gröf. Sama viðhorf heyrir maður nú gagnvart danska blaðinu. --- --- --- Hér á Vesturlöndum leggjum við ekki bann við umfjöllun um hugmyndir. Hins vegar er nokkuð útbreitt samkomulag um að megi takmarka tjáningarfrelsið ef það beinist gegn persónu manna, hvernig fólk er, hvort það er rauðhært, fatlað eða hörundsdökkt. Það má jafnvel segja að sé ákveðin tilhneiging til að ganga of langt í þá átt í nafni félagslegs rétttrúnaðar. En trúarbrögð eru hugmyndir. Þær á að vera hægt að salla niður ef maður vill. Við eigum að geta talað alveg óþvingað um afturhaldið í páfanum, hvað okkur þykja sumir kristnir söfnuðir í Ameríku fáránlegir, um stéttaskiptinguna sem býr í hindúasið, kvennakúgunina í íslam. Rétt eins og mér er heimilt að boða kristna trú eða íslam, er mér frjálst að segja að Biblían eða Kóraninn séu lygi og þvættingur. Við ofsækjum fólk ekki vegna trúarbragða, en það er leyfilegt að gagnrýna þau, hæða þau, móðga þau ef verða vill. Líka þó það sé gert með ósmekklegum hætti. Þetta er hægt í vegna þess að í samfélagi okkar tókst - á löngum tíma og með miklum erfiðismunum - að skilja á milli hins veraldlega sviðs og hins trúarlega. Ég held að fæstir í Evrópu vilji snúa aftur til gamla tímans - ekki einu sinni hinir trúuðu. --- --- --- Það er mikið verið að fjalla um múslima sem hafa móðgast. Í raun er notkun þessa orðs, múslimi, vandræðaleg. Hér á landi myndu menn fyrst líta á sig sem Íslandinga, svo sem íbúa einhvers bæjarfélags, síðan kristna menn eða eitthvað annað. Trúin er að miklu leyti einkamál; í löndum múslima eru trúarbrögðin, pólitíkin og hið opinbera líf allt í einum graut. Þess vegna er hægt að gera kröfu um að ríkisstjórn biðjist afsökunar á því sem dagblað hefur gert. Samkvæmt hugmyndum okkar um opið og frjálst samfélag er það einfaldlega ekki hægt. Ég sem kristinn maður áskil mér fullan rétt til að móðgast ekki þótt gert sé grín að kristinni trú. Það breytir nákvæmlega engu um trú mína. Þeir móðgast yfirleitt sem vilja móðgast. Maður hefur líka sterklega á tilfinningunni að í múslimalöndum sé vandamálið eitthvað allt annað en teikningarnar úr danska blaðinu - sem nota bene eru teiknaðar af mönnum sem játa ekki íslam, beygja sig ekki undir trúarsetningar múslima. Það þarf að skoða betur hverjir hafa hag af múgæsingunum, hvaða tilgangi þær þjóna. Þegar morðingjar eins og Shamil Basayev í Tsétséníu eru farnir að hafa í hótunum við borgara á Norðurlöndunum verður maður hugsi. Er það ekki einmitt þetta ofstæki sem kemur óorði á íslam - fremur en skopmyndir? Maður hefur líka á tilfinningunni að þeir sem mótmæla hvað ákafast þyrftu ekki að kemba hærurnar ef þeir létu svona gegn stjórnvöldum í heimalandi sínu. Þá er auðveldara að beina gremjunni að smáríki á norðurhjaranum. --- --- --- En svona úr því verið er að tala um að hlífa viðkvæmum tilfinningum: Danskir biskupar benda á að það sé móðgun við kristna trú þegar danski fáninn er brenndur, krossinn á Dannebrog sé jú heilagasta trúartákn í kristindómnum. Kannski hafa menn ekki pælt nóg í þessu, við erum líka með kross í íslenska fánanum. Er kannski bráðum ástæða til að breyta um fána? Svona til að móðga ekki neinn í fjölmenningarsamfélaginu.