Hæstiréttur hefur mildað dóm Héraðsdóms yfir fjórum mönnum sem gefið var að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda hjá einu eða fleiri af fimm hlutafélögum, þar á meðal Japís og Planet Reykjavík.
Þrír mannanna, þeir Árni Þór Vigfússon, Kristján Ragnar Kristjánsson og Ragnar Orri Benediktsson, komu við sögu í Símamálinu svokallaða.
Í Héraðsdómi höfðu mennirnir fjórir verið dæmdir til að greiða hátt í 100 milljónir króna í sekt fyrir skattsvikin, þar af Kristján Ragnar til greiðslu um 66 milljóna, en Hæstiréttur minnkaði samanlagða upphæð í um 22 milljónir. Þar af skal Kristján Ragnar greiða 18,5 milljónir.
Í dómi Hæstaréttar segir að brot Ragnars Orra og fjórða manns teljist ekki meiri háttar í skilningi almennra hegningarlaga og sama gildir um hluta af brotum Árna Þórs. Hins vegar taldi dómurinn brot Kristjáns Ragnars meiri háttar og hlaut hann því hæstu sektina.