Óttast var um öryggi mótmælendanna sem handteknir voru við álver Alcan í Straumsvík. Óskað var eftir aðstoð lögreglu um klukkan eitt í dag. Talið var að þeir sem fóru inn á svæðið gætu verið í alvarlegri hættu að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Lögregla handtók 13 mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland sem höfðu hlekkjað sig við aðalhlið Alcan og eins nokkra sem fóru inn á lokað athafnarsvæði álversins. Lögð var áhersla á að finna fólkið og koma því í burtu. Fólkið var fært á lögreglustöð til skýrslutöku og frekari málsmeðferðar.
Hátt í 20 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni sem gekk fljótt og vel fyrir sig og enginn slasaðist. Öllum aðgerðum lögreglu á svæðinu lauk um fjögurleytið en yfirheyrslur yfir hinum handteknu standa enn yfir.