Century Aluminum fellur í byrjun dags

Gengi hlutabréfa í Century Aluminum, móðurfélagi álversins á Grundartanga, féll um 10,6 prósent við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag og er það mesta fall dagsins. Á eftir fylgir gengi Færeyjabanka, sem féll um 5,46 prósent. Bakkavör um 4,6 prósent, Marel um 2,95 prósent, Össur um 1,82 prósent, Icelandair um 1,18 prósent, Eimskip um 1,02 prósent og Alfesca um 0,48 prósent. Lokað var fyrir viðskipti með Exista, Glitni, Kaupþing, Landsbanka Íslands, Straum og Spron í morgun. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,56 prósent í byrjun dagsins og stendur hún í 3.078 stigum.