Þrír fréttamenn við dönsku stjónvarpsstöðina TV2 hafa verið sektaðir um 150 þúsund íslenskar krónur fyrir vopnakaup vegna fréttar sem þeir voru að vinna að.
Í fréttinni vildu þeir sýna framá hversu auðvelt væri að kaupa veiðivopn og skotfæri á svörtum markaði.
Slík vopn hafa verið notuð við afbrot í Danmörku, til dæmis bankarán. Lögreglan kærði fréttamennina fyrir brot á vopnalögum.
Þess má geta að fréttamenn þáttarins Kompáss á Stöð 2 keyptu á dögunum skammbyssu í undirheimum Reykjavíkur, í sama tilgangi.
Þeir skiluðu byssunni til lögreglunnar, en neituðu að gefa upp seljanda (heimildarmann). Af því varð enginn eftirmáli.