Úrúgvæinn Diego Forlan var hetja Atletico Madrid er hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-1 sigri á Fulham í framlengdum úrslitaleik Evrópudeildar UEFA.
Forlan skoraði því öll mörk Atletico í síðustu fjórum leikjum liðsins í keppninni. Hann tryggði liðinu 1-0 sigur á Liverpool í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum og kom svo Atletico í úrslitaleikinn með því að skora í framlengingu síðari viðureignarinnar á Anfield.
Forlan skoraði fyrra markið á 32. mínútu í kvöld eftir að hafa stýrt misheppnuðu skoti Sergio Agüero í markið.
Aðeins fimm mínútum síðar náði Simon Davies að jafna metin fyrir Fulham með góðu skoti eftir fyrirgjöf Zoltan Gera.
Ekkert mark var skorað í síðari hálfleiknum og ekki fyrr en að Forlan náði að afgreiða knöttinn snyrtilega í netið fjórum mínútum áður en framlengingunni lauk.