Bíó
Catfish
Leikstjóri: Nev Schulman og Henry Joost
Sýnd á Haustbíóhátíð Græna ljóssins í Bíó Paradís
Heimildarmyndin Catfish er með einhverjum óvæntasta söguþræði sem ég hef orðið vitni að í kvikmyndahúsi. Og raunar er saga aðalpersónunnar Nev Schulman lyginni líkust. Catfish ætti auðvitað að vera sýnd öllum þeim ungmennum sem vilja tengjast ókunnugu fólki á Facebook því á þessari ágætu samskiptasíðu getur fólk þóst vera eitthvað annað en það er.
Það er eiginlega best að segja sem minnst um söguþráðinn heldur leyfa myndinni að koma áhorfendum á óvart. Catfish fer reyndar rólega af stað en hefur sig til flugs þegar aðalpersónan, New York-ljósmyndarinn Nev Schulman, uppgötvar að ekki er allt með felldu hjá nýja vininum hans á Facebook. Uppljóstrunin er einstök og á eftir að koma fólki í opna skjöldu.
Niðurstaða: Catfish er óvæntur gleðigjafi þar sem Facebook og blekkingunni sem þar fær stundum að lifa eru gerð góð skil á mannlegan hátt.
Skylduáhorf fyrir netverja
