Lögreglan á Norður-Sjálandi er að verða vitlaus á að finna ekki mann sem er haldinn þeirri ónáttúru að biðja hlaupakonur að prumpa á sig.
Þetta byrjaði 10. janúar síðastliðinn í smábænum Kokkedal sem er norður af Kaupmannahöfn. Þá voru tvær konur að skokka eftir skógarstíg þegar ungur maður skaut upp kollinum fyrir framan þær. Og bað þær um að prumpa á sig.
Þeim varð að vonum illa við og hlupu sýnu hraðar til baka en þær höfðu komið. Brian Stybe aðstoðar lögreglustjóri segir í samtali við Extra Bladet að alls hafi þeir fengið sjö tilkynningar frá konum sem hafa orðið fyrir barðinu á manninum.
Hann hefur aldrei reynt að elta konurnar eða gera þeim mein en Strybe vill engu að síður hafa upp á honum.
-Við lítum svosem ekki á þetta sem stærsta lögreglumál í heimi. En maðurinn þarf auðsjáanlega á einhverri hjálp að halda og við viljum því gjarnan hafa uppá honum.
Leitin að hinum fúla fretjálki heldur því áfram.