Borgarstjórinn lætur ekki sitt eftir liggja á Hinsegin dögum, en hann trónaði hátt yfir höfðum vegfarenda, klæddur upp sem Fröken Reykjavík, og rak upp gleðióp þar sem hann sigldi með gleðigöngunni í áttina að Arnarhóli.
Fröken Reykjavík kastaði rósum til áhorfenda, veifaði og skríkti af gleði að sögn vegfarenda, en meðlimir Besta Flokksins gengu svo í fylkingu á eftir hamingjusömu frúnni.
Fyrir ári síðan tók Jón einnig virkan þátt í Gleðigöngunni en þá var hann klæddur upp sem frú á miðjum aldri og gladdi hjörtu viðstaddra.
Gleðigangan er nú að mestu leyti komin framhjá Arnarhóli, lokastöð göngunnar, en þar taka við útitónleikar í sólinni.
