Eftir ellefu ítarleg viðtöl við Anders Behring Breivik er samtölum réttargeðlækna við hann nú lokið. Geir Lippestad, verjandi hans segir samtölin hafa tekið mun lengri tíma en áætlað var í fyrstu. Breivik hefur játað ábyrgð á hryðjuverkunum í Útey.
„Ég ætla ekki að fara í efnislegt innihald samtalanna, en ég get staðfest að við erum búin," segir Synne Sørheim, réttargeðlæknir, í samtali við norska ríkisútvarpið. Hún segir að réttargeðlæknarnir muni skila skýrslu til þingréttarins í Osló fyrir 1. nóvember.
Norska ríkisútvarpið segir að með viðtölum sínum við Breivik eigi réttargeðlæknarnir að komast að því í hvernig hugarástandi Breivik var þegar hann framdi voðaverkin. Þeir eiga síðan að leggja mat á það hvort Breivik sé sakhæfur eða ekki.
Samtölum Breiviks við geðlækna lokið
Jón Hákon Halldórsson skrifar
