Símhringingar hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik til lögreglunnar í Noregi hafa verið gerðar opinberar. Breivik hefur játað að hafa myrt 77 manns í sprengjuárás í Osló og skotárás í Útey skömmu síðar.
Breivik hafði samband við yfirvöld eftir að skotárásin á Útey hafði staðið í tæpa klukkustund. Hann hringdi síðan aftur 30 mínútum seinna. Hann segist hafa hringt í lögregluna tíu sinnum en hafi aðeins verið svarað tvisvar.
Breivik er yfirvegaður þegar hann kynnir sig. Hann segist vera foringi and-kommúnískar hreyfingar og hann sé nú staðsettur í Útey - hann vilji gefa sig fram.
Í seinna símtalinu segist Breivik hafa lokið verkefni sínu og að það hafi verið í nafni Musterisriddara (e. Knights Templar).
Verjandi Breiviks, Geir Lippestad, segir það vera undarlegt að skjólstæðingur sinn hafi ekki látið vopnin síga eftir símtölin.
Lögreglan í Noregi hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast ekki nógu fljótt við símtölum Breiviks.
Hægt er að hlusta á upptökurnar á vefsíðu The Telegraph.

