Á þriðjudeginum birtist svo undarleg yfirlýsing frá Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, á heimasíðu hans. Þar sagðist hann vera kominn með nóg af Vinstri grænum og fyndi fyrir vaxandi óánægju almennings í sinn garð. Því hefði hann ákveðið að segja af sér. Þegar nánar var grennslast fyrir um málið kom að sjálfsögðu í ljós að einhver óprúttinn tölvuþrjótur hafði komist inn á heimasíðu ráðherrans og tilkynnt um afsögn hans.
Sama dag fór Gísli Tryggvason, sem hafði verið kjörinn á stjórnlagaþingið, fram á að Hæstiréttur fjallaði aftur um kæru þremenninga sem kærðu stjórnlagaþingskosningarnar og fengu ógildar.
Sem kunnugt er dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ógildar í þar síðustu viku.
Síðar kom í ljós að Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, teldi sig vanhæfan til þess að fjalla aftur um málið í ljósi viðtals sem Þórhallur Guðmundsson tók við hann í Návígi.

Í miðri vikunni féll svo tímamótadómur þar sem starfsmaður Isavia var fundinn sekur um að hafa áreitt undirmann sinn kynferðislega í sumarbústaði. Maðurinn misbauð konunni með því að biðja hana ítrekað um að koma ofan í heitan pott til sín, þar sem hann reyndist nakinn. Þá ruddist hann inn í herbergið hennar og bað hana margsinnis um að snerta sig.
Isavia var gert að greiða konunni 1800 þúsund krónur í það heila.

„Þetta er bara um það að bændaiðnaðurinn er ekki búinn að skila sínu. Mjólkin fer öll til MS og ferðaþjónustan er ekki að virka þannig að eina ráðið þeirra er að fara að strippa. Og þeir æfa sig í kirkjunni á Möðruvöllum í að strippa," sagði Jón Gunnar Þórðarson, sem er leikstjóri að verkinu.
Það leiðindarmál kom svo upp í miðri viku að Kolbrún Ósk Albertsdóttir ætlaði í bíó með manninum sínum en þeim hafði áskotnast boðsmiði á spennumyndina Sanctum. Í ljós kom að myndin var í þrívídd en miðinn gilti eingöngu í tvívídd. Miðaverðið er dýrarar á þrívíddamyndirnar og Kolbrún fékk ekki að borga á milli þannig hún og eiginmaðurinn fóru vonsvikin heim.

Hið sögulega augnablik átti sér svo stað á fimmtudaginn þegar Landsdómur kom saman í fyrsta skiptið í lýðveldissögunni. Þar var tekin fyrir krafa Geirs H. Haarde um að ákæra Alþingis gegn sér verði felld niður.
Geir H. Haarde krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum að málshöfðunin yrði felld niður, en dómurinn vísaði málinu frá. Lögmaður Geirs, Andri Árnason, kærði frávísunina til landsdóms.
Fótboltakappinn Eiður Smári Guðjohnsen skoraði loksins í vikunni, það var þó ekki í fótbolta, heldur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem DV var dæmt fyrir að brjóta á friðhelgi einkalífs fótboltakappans með umfjöllun sinni um fjármál hans.
DV átti þó ekki ómögulegan dag því blaðakonan Agnes Bragadóttir baðst afsökunar í öllum prentmiðlum landsins daginn eftir og náði sáttum við blaðamanninn Inga F. Vilhjálmsson, sem hún hafði sakað um að gera út ungling í tölvuglæpum á forsíðu Morgunblaðsins. Auk þess sem blaðið hélt því fram að Ingi lægi undir grun vegna njósnatölvunnar á Alþingi. Fréttin var þó dregin til baka og Agnes baðst afsökunar að lokum.

Virtasta leikhússíða Þýskalands, Nachtkritik.de, greindi frá valinu í vikunni. Á bak við Nachtkritik standa á fimmta tug gagnrýnenda og leikhúsfræðinga víðsvegar um Þýskaland, Austurríki og Sviss. Að valinu á verki ársins kemur þessi stóri hópur sem og áhorfendur.
Að uppsetningunni komu ásamt Þorleifi, Vytautas Narbutas sem gerði leikmynd, Filippía Elísdóttir sem gerði búninga og Símon Birgisson sem sá um tónlist og medíu.