
Ríkislögreglustjóri jók viðbúnað sinn í gær og Ögmundur segir að lögregluyfirvöld starfi eftir ákveðnum gátlistum í málum sem þessu.
„Það er ekki þar með sagt að á Íslandi hafi skapast eitthvert hættuástand. Við fylgjumst hins vegar með framvindu þessara mála í Noregi og hugsum til þeirra með hlýhug. Við munum hins vegar ekki sýna neitt fljótræði."
Spurður hvort viðbúnaðarstig hér á landi verði aukið í kjölfar sprengingarinnar segir hann að mikilvægast sé að sýna yfirvegun.
„Maður getur aldrei sagt neitt með fullri vissu, en það er náttúrulega mjög mikilvægt að þjóðfélög bregðist ekki við í panikk og fari að herða á einhverjum öryggisráðstöfunum, ég held að það sé ekki rétta aðferðin. Fyrst og fremst þarf að anda með nefinu og taka þessum alvarlegu atburðum af yfirvegun. Við munum ekki gera neitt að svo stöddu, heldur bíða og sjá hverjar eru orsakirnar og hverjir standa að þessu."
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að þessi mál muni að öllum líkindum verða rædd í ríkisstjórn. „Við erum náttúrulega með almannavarnir og ríkislögreglustjóra sem er ábyrgur fyrir okkar kerfi. Menn eru í miklu sambandi við starfsbræður sína og fylgst er grannt með stöðu mála."
Össur ræddi við norska sendiherrann hér á landi í gær um leið og honum bárust fregnir af málinu. „Ég tjáði honum okkar miklu samúð með Norðmönnum yfir þessum hræðilega atburði." Hann reiknaði með að ræða við Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, í gær.
Starfsfólk hefur verið kallað heim úr sumarfríi í utanríkisráðuneytinu til að afla upplýsinga um Íslendinga á svæðinu. Össur segir það kerfi hafa komist í gang um leið og fréttist af harmleiknum í Ósló.- kóp