Liverpool er komið á toppinn í sínum riðli í Evrópudeildinni eftir 1-0 sigur á Anzhi á Anfield í kvöld. Liverpool fékk góða hjálp frá svissneska liðinu Young Boys sem vann Udinese á sama tíma.
Sigurmark Liverpool í kvöld kom úr óvæntri átt en eins og oft í síðustu leikjum var Luis Suárez hreinlega fyrirmunað að skora.
Stewart Downing skoraði frábært mark á 53. mínútu og það dugði til sigurs. Hann fékk boltann út á kanti lék inn að vítateignum og skoraði með stórglæsilegu og óverjandi skoti upp í fjærhornið.
Liverpool er með sex á toppnum eða tveimur stigum meira en Anzhi og Udinese sem koma í næstu sætum.

