Viðamiklar grunnrannsóknir á hafsbotninum úti fyrir Norðurlandi, sem hófust fyrir tólf árum, hafa meðal annars leitt til gasleitar á Skjálfanda, sem nú stendur yfir, en einnig aflað nýrrar þekkingar um eldvirkni á svæðinu með hjálp þrívíddarmynda sem fjölgeislamælingar hafa náð af botninum.
Heilu neðansjávareldfjöllin hafa komið í ljós, eins og til dæmis það sem Grímseyingar þekkja sem Stóragrunn. Þar náðist árið 2005 upp nýrunninn hraunmoli af hafsbotni sem bendir til að þá hafi verið liðinn stuttur tími frá síðasta gosi, á svæði þar sem öflugar skjálftahrinur hafa verið síðustu tíu ár.

Bryndís segir að þau Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur séu sammála um að steinninn gæti hafa verið nokkurra mánaða en ekki margra ára gamall.
Til að fá nákvæmari aldursákvörðun segir Bryndís að frekari rannsóknir þyrfti. Hún nefnir að haustið 2002 hafi mælst þarna mikill órói með skjálfta upp á 5,5 stig, sem gæti hafa tengst litlu eldgosi, og þar fannst einmitt hraunmolinn, í sigdal í Stóragrunni.

Þeirri spurningu svarar Bryndís játandi. Ekki hafi verið til nákvæm mælitæki, eins og jarðskjálftamælar, fyrr en síðustu 40-50 ár. „Þannig að það vissi enginn hvað var að gerast hér áður fyrr, nema þegar menn sáu loga upp úr hafinu, eins og til dæmis árið 1867. Þá gaus við Mánáreyjar.“
Nánar var fjallað í málið í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.