Afar áhugavert mál er komið upp hjá liði Miami Dolphins í NFL-deildinni. Einn leikmaður liðsins yfirgaf herbúðir félagsins þar sem hann varð fyrir einelti í búningsklefanum.
Leikmaðurinn, Jonathan Martin, var svo illa haldinn að hann leitaði sér sálfræðiaðstoðar. Óvíst er hvenær hann snýr aftur úr meðferð.
Martin er nýliði í deildinni og það er alkunna að eldri leikmenn eiga það til að stríða nýliðunum. Einn af reynslumeiri leikmönnum liðsins, Richie Incognito, gekk aftur á móti allt of langt og hefur nú verið settur í leikbann vegna málsins.
Incognito er sagður hafa farið mjög illa með Martin og meðal annars lesið viðbjóðsleg skilaboð inn á talhólfið hans. Þar hótaði hann liðsfélaga sínum.
Í talhólfskveðjunni segist hann ætla að drepa Martin ásamt því að hann dregur hvergi undan í grófum talsmáta í garð nýliðans. Kallar hann öllum illum nöfnum, þar á meðal "nigger", og segist ætla að slá mömmu hans.
Fastlega er búist við því að Dolphins reki Incognito en málið hefur vakið sterk viðbrögð í Bandaríkjunum.
