Kurteisar aðvaranir Álfrún Pálsdóttir skrifar 26. mars 2013 06:00 Í síðustu viku eyddi ég nokkrum afbragðsgóðum túristadögum í Skotlandi. Það er nú varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Skotland kom mér skemmtilega á óvart. Ég sá ekki einn einasta mann í skotapilsi en bruggaði mitt eigið viskí. Ég fékk að fylgjast með landsliðsæfingu Skota í knattspyrnu. Mér var sagt að þeir væru eins og við, vanari að tapa en vinna landsleiki. Þrátt fyrir að taka á móti mér með hvítum snjóflygsum og köldu roki þegar ég bjóst við að vera á leiðinni í smá vorstemningu náðu Skotarnir sjálfir að hlýja mér með almennilegheitum. Glaðlyndir og kurteisir upp til hópa, eiginlega þannig að kaldi Íslendingurinn vissi ekki hvernig við ætti að bregðast á köflum. Búðastarfsmenn tóku á móti mér með bros á vör og splæstu iðulega í kveðjuna „Sæl góða mín, hvernig hefurðu það í dag?" Þegar fullkomlega ókunnugur einstaklingur vill vita hvernig þér líður er ekki annað hægt en svara með góðu brosi og jákvæðnina að vopni. Götusalinn á horninu vinkaði og brosti án þess að reyna að selja mér eintak, þrátt fyrir bítandi kuldann í gráum hversdeginum. Merkilegust þótti mér samt skiltamenningin í Skotlandi. Aðvörunarskilti eru einstaklega kurteisleg og gildir þá einu hverju þeim er ætlað að banna. Hver mundi voga sér að kveikja sér í sígarettu inni í leigubíl þegar búið er að koma notalegu skilti fyrir við hurðina þar sem stendur „Okkur þætti vænt um ef farþegar myndu láta það vera að kveikja sér í sígarettu í þessum bíl. Takk kærlega fyrir." Í lyftunni á hótelinu var svipað skilti sem greindi frá því að reykingar innan veggja hótelsins væru ekki leyfðar, nema viðkomandi vildi borga mörg pund fyrir. „Við minnum á að ef þú kveikir þér í sígarettu inni á hótelinu gæti það orðið dýrasta sígaretta lífs þíns því þá neyðumst við til að rukka þig um 150 pund. Það er því best fyrir þig að láta það vera." Ósjálfrátt fór ég að hugsa um aðvörunarskiltin hérna heima og áttaði mig á því að þau búa öll yfir frekjulegum undirtóni miðað við vinalegu skosku skiltin. „Reykingar bannaðar." „Bannað að leggja." „Akstur bannaður." „Slökktu á farsímanum." Miðað við skosku skiltin, sem eru eiginlega eins og vinsamleg tilmæli, verða íslensku skiltin bara að leiðinlegum skipunum þegar þau eru lesin upphátt. Kannski færri myndu stelast til að leggja í fatlaðrastæði við Kringluna ef skilaboðin væru á þessa leið: „Kæri viðskiptavinur, okkur þætti vænt um að þú sýndir þá kurteisi að skilja þetta stæði eftir fyrir þá sem þurfa á því að halda, enda er styttra að innganginum héðan. Takk kærlega fyrir hugulsemina." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Álfrún Pálsdóttir Bakþankar Skoðanir Mest lesið Óvandaður og einhliða fréttaflutningur RÚV af stríðinu á Gaza Birgir Finnsson Skoðun Hvað ef ég hjóla bara í vinnuna? Eiríkur Búi Halldórsson Skoðun Staðreyndir eða „mér finnst“ Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun Ekki leiðrétting heldur skattahækkun: Afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun Í skugga kerfis sem brást! Harpa Hildiberg Böðvarsdóttir Skoðun Frídagar í klemmu Jón Júlíus Karlsson Skoðun Fasteignaviðskipti – tímabært að endurskoða leikreglurnar? Hlynur Júlísson Skoðun Palestína er að verja sig, ekki öfugt Stefán Guðbrandsson Skoðun Lýðræði á ystu nöf: Hver er afstaða unga fólksins? Jonas Hammer Skoðun Fjármagna áfram hernað Rússlands Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Í síðustu viku eyddi ég nokkrum afbragðsgóðum túristadögum í Skotlandi. Það er nú varla í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að Skotland kom mér skemmtilega á óvart. Ég sá ekki einn einasta mann í skotapilsi en bruggaði mitt eigið viskí. Ég fékk að fylgjast með landsliðsæfingu Skota í knattspyrnu. Mér var sagt að þeir væru eins og við, vanari að tapa en vinna landsleiki. Þrátt fyrir að taka á móti mér með hvítum snjóflygsum og köldu roki þegar ég bjóst við að vera á leiðinni í smá vorstemningu náðu Skotarnir sjálfir að hlýja mér með almennilegheitum. Glaðlyndir og kurteisir upp til hópa, eiginlega þannig að kaldi Íslendingurinn vissi ekki hvernig við ætti að bregðast á köflum. Búðastarfsmenn tóku á móti mér með bros á vör og splæstu iðulega í kveðjuna „Sæl góða mín, hvernig hefurðu það í dag?" Þegar fullkomlega ókunnugur einstaklingur vill vita hvernig þér líður er ekki annað hægt en svara með góðu brosi og jákvæðnina að vopni. Götusalinn á horninu vinkaði og brosti án þess að reyna að selja mér eintak, þrátt fyrir bítandi kuldann í gráum hversdeginum. Merkilegust þótti mér samt skiltamenningin í Skotlandi. Aðvörunarskilti eru einstaklega kurteisleg og gildir þá einu hverju þeim er ætlað að banna. Hver mundi voga sér að kveikja sér í sígarettu inni í leigubíl þegar búið er að koma notalegu skilti fyrir við hurðina þar sem stendur „Okkur þætti vænt um ef farþegar myndu láta það vera að kveikja sér í sígarettu í þessum bíl. Takk kærlega fyrir." Í lyftunni á hótelinu var svipað skilti sem greindi frá því að reykingar innan veggja hótelsins væru ekki leyfðar, nema viðkomandi vildi borga mörg pund fyrir. „Við minnum á að ef þú kveikir þér í sígarettu inni á hótelinu gæti það orðið dýrasta sígaretta lífs þíns því þá neyðumst við til að rukka þig um 150 pund. Það er því best fyrir þig að láta það vera." Ósjálfrátt fór ég að hugsa um aðvörunarskiltin hérna heima og áttaði mig á því að þau búa öll yfir frekjulegum undirtóni miðað við vinalegu skosku skiltin. „Reykingar bannaðar." „Bannað að leggja." „Akstur bannaður." „Slökktu á farsímanum." Miðað við skosku skiltin, sem eru eiginlega eins og vinsamleg tilmæli, verða íslensku skiltin bara að leiðinlegum skipunum þegar þau eru lesin upphátt. Kannski færri myndu stelast til að leggja í fatlaðrastæði við Kringluna ef skilaboðin væru á þessa leið: „Kæri viðskiptavinur, okkur þætti vænt um að þú sýndir þá kurteisi að skilja þetta stæði eftir fyrir þá sem þurfa á því að halda, enda er styttra að innganginum héðan. Takk kærlega fyrir hugulsemina."
Ekki leiðrétting heldur skattahækkun: Afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun
Ekki leiðrétting heldur skattahækkun: Afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr Guðrún Hafsteinsdóttir Skoðun