Vítalí Klitsjkó, andspyrnuleiðtogi og fyrrum hnefaleikakappi, tilkynnti fyrr í dag að hann ætli að bjóða sig fram til forseta Úkraínu í kosningum sem munu fara fram í maí næstkomandi.
Frá þessu greinir rússneska fréttaveitan Itar-Tass. Þar kemur fram að Klitsjkó segist ætla að „gjörbreyta leikreglunum í Úkraínu“. Klitsjkó, sem var á sínum tíma heimsmeistari hnefaleikara í þungavigt, hefur verið mjög í sviðsljósinu undanfarna mánuði sem einn helsti talsmaður andspyrnuhreyfingarinnar í Úkraínu.
Itar-Tass greinir einnig frá því að lög í samkvæmt lögum í Úkraínu telst maður ekki úkraínskur ríkisborgari ef maður á skráð heimilisfang í öðrum löndum. Klitsjkó, sem hefur um árabil búið í Þýskalandi, segist hafa gefið upp heimili sitt þar.
„Ég hef verið ríkisborgari Úkraínu alla tíð síðan landið varð sjálfstætt,“segir Klitsjkó. „Ég er ekki með heimilisfang í Þýskalandi.“
Klitsjkó mun því líklega mæta annarri andspyrnuhetju, Júlíu Tímósjenkó fyrrum forsætisráðherra, í forsetaslagnum en hún greindi frá því um helgina að hún hyggðist einnig bjóða sig fram.
