Nýjustu fregnir af réttarhöldunum yfir suður-afríska hlaupagarpinum Oscar Pistorius, sem eins og kunnugt er skaut unnustu sína Reevu Steenkamp til bana fyrir rúmi ári síðan, herma að tölvubúnaður hlauparans hafi verið notaður nóttina fyrir morðið í að vafra á bíla- og klámsíðum.
Saksóknari vill með þessu sýna fram á að samband þeirra hafi líklega ekki verið eins hamingjuríkt og verjendur hafa látið af. Fréttastofa ABC greinir frá.
Pistorius neitar því enn að morðið, sem átti sér stað á Valentínusardeginum á síðasta ári, hafi verið framið að yfirlögðu ráði og heldur því fram að hann hafi talið að um innbrotsþjóf hafi verið að ræða þegar hann skaut í gegnum salernishurð á heimili sínu.
Þegar Reeva fannst látin var hún í varnarstöðu með hendur yfir höfði sér sem bendir til að hún hafi vitað af því að hún væri í hættu þegar hún var skotin. Vitni hafa einnig greint frá því að öskur frá henni hafi borist úr íbúðinni á meðan á skothríðinni stóð, en verjendur segja það ekki hæft í ljósi þess að fyrsta skotið sem í hana fór hafi hæft hana í höfuðið og hún hafi látist samstundis, og því ekki getað gefið frá sér hljóð.
Rannsóknir á vettvangi benda til að Pistorius hafi ekki verið með gervifæturna á sér þegar atvikið átti sér stað, sem verjendur segja að renni stoðum undir að morðið hafi ekki verið planað fyrirfram.
Pistorius skoðaði klámsíður nóttina fyrir morðið
Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
