Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var í gær sæmdur gullmerki American-Scandinavian Foundation á hátíðarsamkomu í New York. Gullmerkið fékk hann fyrir framlag sitt til samvinnu Íslands við Bandaríkin og forystu og framtíðarsýn í alþjóðamálum.
American-Scandinavian Foundation eru aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum. Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að samtökin hafi í hálfa öld unnið að kynningu á menningu og þjóðlífi Norðurlanda í Bandaríkjunum.
Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur flutti ávarp áður en hann veitti forsetanum viðurkenninguna og í því lýsti meðal annars langvarandi sambandi forseta og samstarfi við forystumenn á mörgum sviðum bandarísks þjóðlífs og stjórnkerfis. Hann fjallaði um kynningu hans á árangri Íslendinga við nýtingu jarðhita og hreinnar orku, baráttu gegn loftslagsbreytingum og nýlega sérstakri áherslu á málefni Norðurslóða og stofnun Hringborðs Norðurslóða, Artic Circle, í samvinnu við áhrifafólk í Bandaríkjunum.
Í þakkarræðu sinni minntist Ólafur Ragnar meðal annars hátíðarhaldanna árið 2000 víða um Bandaríkin í tilefni af þúsund ára afmæli landafundanna, sýningarinnar í þjóðminjasafni Bandaríkjanna, Smithsonian, á arfleifð víkinga og samskiptum þeirra við frumbyggja í Bandaríkjunum.
Forsetinn rakti einnig hvernig vaxandi áhersla á Norðurslóðir væri að skapa ný og mikilvæg viðfangsefni í samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlanda.