Jenný Jóakimsdóttir, sem skipaði annað sæti lista Framsóknar í Hafnarfirði í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum, hefur sagt sig úr flokknum.
H220 greinir frá þessu og vísar í tilkynningu Jennýjar á Fésbókarsíðu hennar fyrr í dag.
„Ástæðan er sú ásýnd sem flokkurinn er að fá í fjölmiðlum og það sem enn hefur ekki verið fordæmt á skýran hátt af forystu flokksins. Svona tal sem er að birtast frá sumum flokksfélögum ofbýður mér hreinlega og gengur gegn mínum grundvallarhugsjónum,“ segir Jenný í tilkynningunni.
Er greinilegt á Jennýju að hún er ósátt við að forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi ekki tekið skýra afstöðu hvað varðar ummæli oddvita flokksins í Reykjavík er varða lóðaúthlutun vegna mosku í Reykjavík.
Því sjái hún ekkert annað í stöðunni en að segja sig úr flokknum. Hún muni hins vegar glöð skrá sig í hann að nýju verði skýrt tekið fram að þeir félagar, sem styðji mismunun, séu ekki velkomnir í flokkinn.
Þá getur Jenný þess að hún hafi ekki orðið vör við vilja til nokkurs mismunar hjá flokksfélögum sínum í Hafnarfirði.
Ósátt við forystuna og hætt í Framsókn

Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð segist hafa verið „afskaplega skýr“ um afstöðu sína
Forsætisráðherra gagnrýndi umræðu um flokk sinn í Reykjavík síðdegis í dag.