„Við gos undir jökli er líklegt að öskustrókurinn myndi hafa umtalsverð áhrif á flugumferð,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. Þar kemur fram að vegna hins ótrygga ástands hafi Veðurstofan ákveðið að breyta lit Bárðarbungueldstöðvarinnar úr grænum yfir í gulan á litakorti sem ætlað er til leiðbeiningar fyrir flugumferð.
Þetta er í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar en þar táknar gulur litur óvissustig. Næsta stig, táknað með appelsínugulum lit, þýðir auknar líkur á eldgosi. Rauði liturinn er svo gefinn út þegar eldgos er yfirvofandi eða hafið.
Eyjafjallajökull hlaut sem kunnugt er heimsfrægð í apríl árið 2010 þegar gosmökkurinn olli mestri röskun á flugumferð í heiminum sem sögur fara af.
