Gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs í fjárlagafrumvarpinu annað árið í röð. Áfram er gerð rík aðhaldskrafa á ráðuneytin og undirstofnanir þeirra en gefið er í á nokkrum stöðum. Skiptar skoðanir eru á frumvarpinu, líkt og áður. Óvenju mikil óánægja er hinsvegar í stjórnarliðinu og má búast við breytingum á frumvarpinu í meðförum þingsins.
Vísir tók saman fjórar breytingar sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu sem ekki er einhugur um í stjórnarliðinu.

Frosti Sigurjónsson lýsti yfir efasemdum um lækkun sykurskatts á Facebook-síðu sinni.
Sagði hann rök vera fyrir því að þeir sem borði mikinn sykur borgi fyrir það sérstakan skatt þar sem óhófleg sykurneysla gæti haft alvarlegar heilsufarsafleiðingar. Það yki svo kostnað í heilbrigðiskerfinu.

Fjölmargir Framsóknarmenn, til að mynda Vigdís Hauksdóttir, Karl Garðarsson og Elsa Lára Arnardóttir, hafa lýst sig andsnúna við hækkun virðisaukaskatts á matvæli.
Óánægjan er svo mikil að samtal er hafið á milli stjórnarflokkanna að hætta við eða draga úr fyrirhuguðum hækkunum.

Karl Garðarsson lýsti undrun sinni á forgangsröðun fjármuna í fjárlagafrumvarpinu og benti á að fella ætti niður framlög til að tryggja skilvirk úrræði þolenda kynferðisbrota.
Hann og Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vinna nú að frumvarpi sem á að styrkja stöðu þeirra sem þurfa að sæta heimilisofbeldi.

Eitt málið til viðbótar sem Karl Garðarsson hefur lýst sig andsnúinn er niðurskurður á fjárframlögum til skattrannsóknarstjóra.
„Þessi ráðstöfun verður þeim mun undarlegri í ljósi þess að í frumvarpinu er viðurkennt að átaksverkefni skattrannsóknarstjóra hafi skilað miklum árangri,“ sagði hann um málið á Facebook.