Markmið vísindamanna sem standa að rannsókninni er að varpa ljósi á uppruna vatns og lífs á jörðinni. Philae lenti á 67P þann 12. nóvember, en það staðnæmdist þó ekki á ákjósanlegum stað. Philae skoppaði tvisvar og lenti við klett sem skyggði á sólina. Því fengu sólarrafhlöður farsins ekki nægilega hleðslu og farið varð rafmagnslaust þann 15. nóvember.
ESA hefur ekki gefið út hvernig sameindir fundust, né hve flóknar þær eru, samkvæmt BBC.
Til stóð að bora undir yfirborð halastjörnunnar og var það reynt, en svo virðist sem að jarðsýni hafi ekki skilað sér til farsins. Þó er vitað að bor fór úr Phila en tóks ekki að skila sýni áður en farið varð rafmagnslaust.
Vísindamenn hafa þó ekki gefið upp alla von um að leiðangrinum sé lokið. Þegar halastjarnan nálgast sólu og Philae fær meiri birtu, er talið líklegt að það kveiki á sér aftur. Þó á endanum verður svo heitt á yfirborði halastjörnunnar að Philae mun í raun gefa upp öndina.
Til að ná þeim hraða sem þurfti til að ná halastjörnunni þurfti að nota þyngdarafl pláneta til að sveifla Rosettu áfram.
Fram til desember á næsta ári mun Rosetta fylgja halastjörnunni í kringum sólina og áætlað er að verkefninu ljúki þá. Þá verða liðin meira en ellefu ár frá flugtaki Rosettu og verður það staðsett meira en hálfan milljarð kílómetra frá jörðinni.