Segulskekkja
Soffía Bjarnadóttir
Mál og menning
Soffía Bjarnadóttir skrifar frumlegan og oft fallegan stíl í fyrstu skáldsögu sinni, Segulskekkju. Hún hefur sýnilega lagt mikið í textann sem er uppfullur af skemmtilegum og oft óvæntum myndum og samsetningum auk þess sem hún nýtir sér vísanir í bókmenntir og kvikmyndir óspart (sem mér finnst ekki ókostur). En það vantar því miður upp á þann drifkraft sem sterkur söguþráður getur veitt textanum og persónurnar eru um margt fjarlægar.
Rammafrásögnin snýst um ferð aðalpersónunnar, Hildar, til Flateyjar til að vera við útför móður sinnar og dvöl hennar í húsi móðurinnar þar sem hún rifjar upp fortíðina. Sagan er ágætlega byggð þannig að lesandi fær að vita meira um fortíð persónanna, nýjar persónur eru kynntar til sögunnar og tengsl þeirra við aðalpersónurnar koma í ljós og þetta er það sem rekur söguna áfram. Framan af er gaman að lesa bók Soffíu vegna þess að stíllinn er upplifun í sjálfu sér en þegar á líður fer maður að sakna þess að framvindan grípi mann betur. Hildur rifjar upp atvik úr fortíð sinni, sérstaklega þau sem tengjast sambandi hennar, eða sambandsleysi, við móður sína, Siggý, sem var augljóslega manneskja sem átti við alvarleg andleg vandamál að stríða. En maður verður ekki var við að aðalpersónan breytist eða þróist að ráði. Hún er áttavillt í lífinu, m.a. vegna áhrifa móðurinnar, og maður hefur enga sérstaka trú á því að það hafi breyst í lok bókarinnar þótt hún sé orðin hrifinn af manni sem hún hittir. Og kannski er það einmitt punkturinn. Í persónu Hildar er innbyggð segulskekkja sem aldrei verður leiðrétt, eins og hún segir sjálf: „Siggý er allar mínar áttir. Hún fann upp átt skekkjunnar“ (35) og Hildur verður bara að lifa með því.

Niðurstaða: Í bók Soffíu eru áhugaverðar pælingar um lífið og hlutverk fólks í því og stíllinn er á köflum virkilega skemmtilegur en framvindunni er nokkuð ábótavant.