Sú nýbreytni verður í ár að kvöldverðurinn verður haldinn í Tapashúsinu en hingað til hefur hann verið haldinn í húsnæði Hjálpræðishersins. Eigandi staðarins lánaði Hernum staðinn en hann verður einnig sjálfboðaliði þar um kvöldið. „Það hafa svo rosalega margir bæst við hópinn og húsnæðið okkar eiginlega orðið of lítið,“ segir Rannvá og tekur fram að það hafi því verið kærkomið að fá lánaðan stað undir kvöldverðinn.

Í Konukoti, sem er næturathvarf fyrir heimilislausar konur, hafa undanfarin ár verið 5-6 heimilislausar konur á aðfangadagskvöld. „Við vitum samt aldrei fyrr en á síðustu stundu hvað þær verða margar en við erum með pláss fyrir átta konur þannig við erum tilbúnar með pakka fyrir þann fjölda,“ segir Kristín Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri athvarfsins. Kokkur í sjálfboðastarfi sér um eldamennskuna líkt og undanfarin tíu ár og konurnar fá allar gjafir. „Þær fá allar pakka með nýrri bók, konfekti, snyrtivörum og einhverju fatakyns, það er ekkert afgangs dót heldur pössum við að þetta sé allt nýtt,“ segir Kristín. Opnunartími athvarfsins er lengdur yfir hátíðarnar og ekki lokað yfir daginn líkt og vanalega.
„Flestir frá okkur borða hjá Hjálpræðishernum,“ segir Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður Gistiskýlisins, sem er athvarf fyrir heimilislausa karla.
Opnunartími er ekki lengdur yfir jólin líkt og í Konukoti. „Ég vil samt taka það fram að mér finnst hafa verið villandi umræða í fjölmiðlum undanfarið. Hér er enginn rekinn út á morgnana, húsið bara lokar klukkan 10 og þá verða allir að fara út.“
Hann segir skjólstæðinga Gistiskýlisins geta þá farið á Kaffistofu Samhjálpar sem verður opin yfir daginn og einnig í Dagsetrið á Eyjaslóð þar sem opið verður frá 10-16 alla dagana en Gistiskýlið er opnað klukkan 17 á daginn.