Frönsk björgunarsveit bjargaði í dag hinum 28 ára Rishi Khanal úr rústum byggingar í Katmandú þar sem hann hafði verið fastur í 82 klukkustundir.
Khanal var staddur í íbúð sinni á annarri hæð byggingar þegar skjálftinn stóri varð á laugardaginn. Hann segir að byggingin hafi byrjað að vagga á laugardaginn en síðan hafi allt orðið svart.
Skjálftinn á laugardaginn mældist 7,8 að stærð og stóð yfir í rúmar tvær mínútur. Staðfest er að rúmlega fimm þúsund manns hafi farist í skjálftanum og er óttast að fjöldinn komi til með að hækka enn frekar. Fjölda fólks er enn saknað.
Khanal lýsir því hvernig hann hafi verið fastur í rústum byggingarinnar þegar hann komst til meðvitundar. Hann byrjaði þá að hrópa á hjálp og en það var fyrst þremur sólarhringum síðar sem franska sveitim kom honum til bjargar.
Khanal segir að allt í kringum hann hafi verið lík látinna íbúa hússins. Hann segir að lyktin af rotnandi líkum hafi magnast með hverjum klukkutíma og að hann hafi þurft að drekka eigið þvag til að deyja ekki úr vökvaskorti.
„Í gær hafði ég misst alla trú og var viss um að ég yrði eftir í rústunum. Ég var viss um að ég myndi deyja þar. Neglur mínar voru alveg hvítar og varirnar sprungnar. Þrátt fyrir það hélt ég áfram að banka og að lokum var einhver sem heyrði í mér og aðstoð barst,“ segir Khanal í samtali við ITV.
Skjálftinn í Nepal: Bjargað eftir 82 tíma í rústunum

Tengdar fréttir

Veita aðstoð í smábæjum
Í lok vikunnar heldur Anup Gurung til Nepal frá Íslandi, en hann er búsettur hér.

Þjóðarsorg lýst yfir í Nepal
Forsætisráðherra Nepals segir að fjöldi látinna gæti nálgast tíu þúsund.

Íslendingar taka höndum saman og safna fyrir bágstadda í Nepal
Meðlimir í félagi Nepala á Íslandi hvetja fólk til þess að gefa í safnanir vegna jarðskjálftanna í Nepal. Margt smátt gerir eitt stórt og hver einasta gjöf, hvort sem er peningur eða föt, hjálpar.

Bjargaði lífi Ingólfs að vera ekki í grunnbúðunum
"Það er erfitt að sætta sig við þetta en ég mun ekki klífa Everest á þessu ári,“ segir Ingólfur Axelsson.