„Hvað gerir forsetinn?“ spyr Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í pistli í Fréttablaðinu í dag. Þar lýsir hún yfir óánægju sinni á frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi sem hún segir í raun vera gjöf á makrílkvóta til nokkurra útgerða til langs tíma.
Forseti Íslands staðfesti lög um veiðigjöld árið 2013 sem fólu í sér mikla lækkun þeirra. Þá höfðu forseta borist 35.000 undirskriftir þar sem skorað var á hann að staðfesta ekki lögin. Forseti réttlætti staðfestinguna með þeim rökum að lögin væru bara til eins árs.
Oddný segir það koma skýrt fram í frumvarpinu sem nú liggur fyrir á Alþingi að óheimilt sé að fella sex ára úthlutun úr gildi með minna en sex ára fyrirvara og að gildistíminn framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn. Hún spyr þess vegna hvað hann geri núna þegar um ótímabundna úthlutun á makrílkvóta er að ræða.
„Makrílfrumvarpið kann að láta lítið yfir sér við fyrstu sýn en þegar betur er að gáð er það líklega eitt stærsta skref í átt að einkavæðingu auðlinda þjóðarinnar sem tekið hefur verið,“ skrifar Oddný að lokum.
