Ráðgjafi stjórnvalda í Líbýu fullyrðir að liðsmönnum vígasveitarinnar ISIS sé smyglað af gengjum í Miðjarðarhafinu til Evrópu. Hann segir vígamennina fela sig í bátum sem fullir eru af flóttamönnum.
Stjórnvöld í Ítalíu og Egyptalandi hafa verið vöruð við að svo gæti farið, en ítalskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að ISIS-liðar hefðu hótað árásum á Páfagarð. Telur ráðgjafinn líklegt að vígamennirnir eigi eftir að búa sig undir frekari árásir. Hann byggir þetta á samtölum við eigendur báta á svæðum sem stjórnað er af ISIS í Norður-Afríku.
Talið er að um sextíu þúsund flóttamenn muni leggja upp í ferðalag yfir Miðjarðarhaf á þessu ári í þeirri von að öðlast betra líf. Stór hluti þeirra lifir leiðangurinn þó ekki af, enda bátarnir oftar en ekki afar illa búnir.
