Oscar Pistorius verður sleppt úr fangelsi þann 21. ágúst næstkomandi. Nánar tiltekið verður Pistorius sleppt á skilorði, en hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir manndráp í fyrra. Hann hóf afplánun sína í október og mun því ekki sitja inni í eitt ár.
Pistorius var dæmdur fyrir að skjóta kærustu sína Reeva Steenkamp til bana á heimili þeirra þann 14. febrúar 2014.
Samkvæmt lögum í Suður-Afríku er heimilt að veita föngum skilorð, en þó undir eftirliti, þegar þeir hafa afplánað einn sjötta af refsingu sinni. Í nóvember verður áfrýjun ákæruvaldsins varðandi sýknun hans vegna morðákæru tekin fyrir í dómstólum þar í landi.
Samkvæmt BBC fékk Pistorius skilorð eftir meðmæli stjórnenda fangelsisins þar sem hann er að afplána dóm sinn.

