Aðeins tveir dagar liðið án of margra tilfella
Kristín Ingibjörg Gunnarsdóttir, deildarstjóri gjörgæslu- og vöknunardeildar Landspítalans í Fossvogi, segir að frá því að verkfall hófst fyrir um hálfum mánuði hafi engan veginn verið hægt að sinna deildinni með þeim lágmarksmannskap sem þeim er ætlað að vera með.

Kristín segir hinsvegar að fjöldi hjúkrunarfræðinga samkvæmt öryggismönnun hafi ekki dugað til að sinna þeim sjúklingafjölda sem verið hefur, nema síðustu tvo daga. Að meðaltali hafi þurft að kalla út sex til sjö manns á vakt á dag, en ekki sé á mörgum að hlaupa þar sem sumarfrí er einnig skollið á í deildinni.
„Á fimmtudaginn var mikil slysaalda sem gekk yfir,“ segir Kristín. „Við kölluðum út tíu manns á engum tíma og starfsfólk hringdi líka inn. Fólk las um þetta í fréttum áður en við vissum að við ættum von á sjúklingum og var að spyrja hvort það ætti að koma, hvað það gæti gert.“
Kristín segir hjúkrunarfræðinga ekki vongóða um að það takist að semja um kjör úr því sem komið er og óttast mjög að lög verði sett á verkfallið.

Kristín leggur áherslu á það að stór hluti hjúkrunarfræðinga deildarinnar hefur margra ára reynslu og sérnám að baki, auk þess sem aðlögunar- og reynslutími nýrra hjúkrunarfræðinga er tvö ár. Því sé um mjög verðmætt starfsfólk að ræða fyrir stofnunina.
„Ég finn einlægan áhuga fólks á þessari vinnu,“ segir hún. „Fólk er togað á milli þess að sækja sér vinnu í Skandinavíu og að vera hér heima áfram að sinna skjólstæðingum okkar.
„Okkur gefinn fingurinn með lagasetningu“
Hildur Dís Kristjánsdóttir, starfandi hjúkrunarfræðingur á deildinni, tekur undir það að starfsfólk sé ansi smeykt við að samningar takist ekki og sé byrjað að hugsa um að segja upp. Hún hafi sjálf leitt hugann að því.
„Það er búið að vera mjög mikið álag hérna á gjörgæslunni og þeir sem eru mest búnir að vinna hérna síðan verkfallið byrjaði eru eiginlega bara orðnir bugaðir,“ segir Hildur Dís. „Ég held að það séu einhverjir sem eru komnir það langt í þessu ferli að þeir muni ekkert hætta við þó að það semjist. Það þarf að koma ansi góður samningur til að þeir komi til baka.“
Hún segir að allir væru þegar farnir ef ekki væri jafn gaman í vinnunni og raun ber vitni. Mikill samhugur sé meðal hjúkrunarfræðinga deildarinnar sem hafi undanfarið reglulega hist utan vinnu til að stappa í hvort annað stálinu og halda hópnum saman.
„En það er komin þreyta og maður sér að glampinn er farinn úr augunum á mörgum,“ segir Hildur. „Ef það kæmi lagasetning, myndi okkur bara finnast að það væri verið að gefa okkur fingurinn. Ríkið er vinnuveitandinn okkar, það er vinnuveitandinn sem væri að setja á okkur lög.“