Klappir Development ehf. og kínverska fyrirtækið NFC undirrituðu í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í gær viljayfirlýsingu um fjármögnun byggingar 120 þúsund tonna álvers á fyrirhuguðu iðnaðarsvæði við Hafursstaði í Skagabyggð. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, fluttu ávörp við tilefnið.
Líkt og greint hefur verið frá, er fyrirhugað að álverið verði í meirihlutaeigu íslenskra aðila. NFC ábyrgist hinsvegar samkvæmt yfirlýsingunni að minnsta kosti sjötíu prósent kostnaðar við framkvæmdina, auk þess að ábyrgjast rekstur álversins á meðan uppkeyrslu þess stendur. Orkuþörf álversins yrði 206 megavött en reiknað er með því að orkan komi frá Blönduvirkjun.
Í fréttatilkynningu segir að gert sé ráð fyrir 240 varanlegum störfum í álveri Klappa og allt að 800 tímabundnum störfum á byggingartíma. Hafursstaðir eru skammt sunnan Skagastrandar og bæði Sauðárkrókur og Blönduós verða innan atvinnusvæðis álversins.
