„Það er alltaf fullt í skráningunni hjá okkur sama hvaða tími er,“ segir Ingunn Unnsteinsdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Mjölnis. „Það er til að mynda að byrja Víkingaþrek í næstu viku hjá okkur og tíu.
Það ætti ekki að hafa farið fram hjá nokkrum manni að Gunnar Nelson hengdi Brandon Thatch á UFC-189 bardagakvöldinu í Las Vegas aðfararnótt sunnudags. Gunnar berst fyrir Mjölni og þjálfar þar einnig.
„Við höfum ekki séð neina aukningu í skráningum í kringum bardagana hans Gunnars. Frá því að Mjölnir byrjaði þá hefur alltaf verið fullt og það hefur alltaf verið biðlisti á námskeiðin. Við finnum hins vegar fyrir því að við fáum fleiri fyrirspurnir í kjölfar bardaganna,“ segir Ingunn.
Um 1.400 iðkendur stunda líkamsrækt og bardagaíþróttir hjá Mjölni og merkja þjálfararnir mun í kjölfar bardaga Gunnars. Bjarki Þór Pálsson er einn þjálfara Mjölnis. „Maður finnur vel fyrir því að bardagakvöldin virðast skila sér í auknum metnaði hjá fólki. Iðkendur sem hafa kannski ekki mætt í talsverðan tíma snúa aftur og taka á því.“
„Húsnæðið hjá okkur er opið frá hádeginu og fram á kvöld. Við ráðum ágætlega við alla þessa iðkendur svo lengi sem þeir taka ekki upp á því að mæta allir í einu,“ segir hann og hlær.
