Landverðir í þjóðgarðinum tóku eftir mosabeði allt í kringum tjöldin og fóru því og ræddu við ferðamennina. Skömmu síðar komu í ljós mörg opin sár í mosahulu skammt frá.
Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, segir það mjög óalgengt að slíkar skemmdir séu unnar á gróðri á Þingvöllum.
„Við höfum aldrei séð neitt svona áður og þess vegna vakti þetta athygli landvarðanna. Þeir fóru og ræddu mjög ákveðið við mennina sem voru alveg miður sín yfir þessu en þeir höfðu talið að þetta væri í góðu lagi,“ segir Einar í samtali við Vísi og bætir við að þeir hafi vonandi lært sína lexíu.
Mjög langan tíma tekur fyrir mosa að jafna sig þegar hann hefur einu sinni verið rifinn upp en eftir að ferðamennirnir fóru eyddu landverðir drjúgri stund í að hylja sum sárin og tókst það að einhverju leyti.
Á Facebook-síðu þjóðgarðsins kemur fram að málið hafi verið tilkynnt til lögreglu og segir Einar að þjóðgarðurinn sé í raun að skoða með lögreglu hvaða viðurlög séu við því að vinna gróðurskemmdir, sektir eða eitthvað slíkt.