Um 200 manns voru saman komnir á lestarstöðinni til að mótmæla skilaboðum Svíþjóðardemókrata.
Ríkissaksóknari Svíþjóðar hefur hafið rannsókn á því hvort Svíþjóðardemókratar hafi gerst sekir um hatursáróður eftir auglýsingaherferð þeirra nú um helgina.
Svíþjóðardemókratar komu upp auglýsingum í neðanjarðarlestarstöðvum í Stokkhólmi þar sem ferðamenn eru beðnir afsökunar á fjölda betlara í borginni.
Í herferðinni eru meðal annars birtar myndir af fólki sofandi á götunni og fullyrt er að allt sé í upplausn í Svíþjóð en ríkisstjórnin aðhafist ekki neitt.
Eitt af aðalstefnumálum Svíþjóðardemókrata er að draga úr komu innflytjenda og flóttafólks til Svíþjóðar. En þeim hefur verið legið á hálsi að vera öfgasinnaður og rasískur stjórnmálaflokkur.
Flokkurinn hefur sótt í sig veðrið undanfarin ár en hann vann tólf prósent atkvæða í sænsku þingkosningunum í fyrra. Í nýjustu skoðanakönnunum má sjá að Svíþjóðardemókratar eru rétt á hælum Jafnaðarmannaflokksins. Jafnaðarmenn mælast með um 24 prósenta fylgi og Svíþjóðardemókratar með 23 prósent. Þá er það í fyrsta skiptið sem Svíþjóðardemókratar komast fram úr hægri flokknum Moderatarna sem mælist með um 20 prósent fylgi.
