Engin ummerki um eld eða sprengingu má sjá á brakinu.Vísir/AP
Hluti flugvélabraks, sem talið er vera úr malasísku flugvélinni MH370 sem hvarf í mars í fyrra, kom til Frakklands í morgun þar sem sérfræðingar munu rannsaka það. Engar vísbendingar eru um að eldur eða sprenging hafi komið upp í vélinni.
Hluti úr brakinu fannst á Reunion eyju í Indlandshafi fyrr í vikunni. Er hann talinn vera hluti af flugvélavæng sem skolaði á land um fjögur þúsund kílómetrum frá þeim stað þar sem farþegaþota Malaysian Airlines er talin hafa farist með 239 manns innanborðs.
Staðfest hefur verið að brakið sé úr Boeing 777 vél og talið er nánast fullvíst að brakið sé úr þotu flugfélagsins.
Umfangsmikil leit stendur nú yfir á svæðinu í og við Reunion eyju, en fjöldi sjálfboðaliða taka þátt í leitinni. Meðal þess sem hefur fundist á svæðinu er ferðataska og kínverskar vatnsflöskur sem einnig verður rannsakað hvort hafi verið um borð í vélinni.
Brakið kom til Frakkalands í dag og verið er að flytja það til höfuðstöðva Rannsóknarnefndar flugslysa í Toulouse.
Munu sérfræðingar hefja rannsókn á brakinu á miðvikudag. Engar vísbendingar séu um að eldur eða sprenging hafi komið upp í vélinni, heldur þykir líkleg að hún hafi lent í sjónum með nefið á undan. Þykir það renna stoðum undir kenningar um að vélinni hafi vísvitandi verið flogið af leið, þó of snemmt sé að segja til um það.