En í hverju fólst svindlið?
Í nútíma bílum er ýmis hugbúnaður sem bregst við hinum ýmsu aðstæðum en Volkswagen hannað sérstakan búnað sem þekkti aðstæður í opinberum útblástursmælingum. Samkvæmt EPA, sem er eftirlitsstofnun í Bandaríkjunum, var búnaðurinn afar nákvæmur og engin tilviljun að hann hafði þessi áhrif.
Þegar hugbúnaðurinn skynjaði að bíllinn væri að fara í gegnum mælingu á útblæstri var þar til gerður mengunarvarnabúnaður settur í gang og kom því bíllinn vel út úr öllum opinberum prófum. Þegar bíllinn var hins vegar í daglegri notkun var mengunarvarnabúnaðurinn ekki virkur.
Með því að slökkva á búnaðinum gat Volkswagen náð meira út úr vél bílsins og sparað eldsneyti.
Ekki hefur verið greint frá hvaða bílar það eru hér á landi sem búnir eru þessum svindlbúnaði en 11 milljónir bíla á heimsvísu voru framleiddir með búnaðinum og eru líkur á að einhverjir þeirra hafi endað hér á landi.
Volkswagen þarf þó á endanum að upplýsa um nákvæmlega hvaða bílar það eru sem búnir eru þessum svindlbúnaði og líklega verður framleiðandinn krafinn til að gera úrbætur á bílunum. Það gæti aftur á móti haft í för með sér aukna díseleyðslu fyrir eigendur með tilheyrandi kostnaði.
Þegar hafa verið lögð drög að hópmálsóknum vegna svindlsins með það að markmiðið að tryggja eigendum Volkswagen bíla með svindlhugbúnaðinum bætur vegna málsins. Það má þó vera öllum ljóst að slík málaferli munu taka langan tíma og gætu liðið nokkur ár þangað til eigendur Volkswagen-bílanna fá nokkuð frá fyrirtækinu.