Króatía hafði beðið um að Slóvenía myndi hleypa 5000 flóttamönnum í gegn á hverjum degi en slóvensk yfirvöld segjast ekki geta orðið við því vegna þess að Austurríki leyfir aðeins 1500 flóttamönnum að fara yfir landamæri sín á hverjum degi.
Fjöldi flóttamanna hefur safnast við landamæri Króatíu og Serbíu vegna takmarkana Slóveníu. Voru um 40 rútur fastar við landamærin í dag. Til ryskinga kom á milli lögreglumanna og flóttamanna sem hafa þurft að bíða lengi við landamærin í kulda og að mestu án matar.
„Við getum ekki tekið við ótakmörkuðum fjölda flóttamanna ef við vitum fyrir víst að þeir geti ekki haldið áfram ferð sinni,“ sagði innanríkisráðherra Slóveníu, Bostjan Cefic í dag en eftir að Ungverjaland lokaði landamærum sínum hafa flóttamenn í auknum mæli farið í gegnum Slóveníu til að ná til vestur-Evrópu.