Í síðustu viku bárust fregnir af því að sýrlenskri fjölskyldu, foreldrum með tvær ungar dætur, væri synjað um landvistarleyfi vegna þess að þau hefðu þegar hlotið hæli í Grikklandi.
„Það á ekki að senda börn í skaðlegar eða hættulegar aðstæður,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Embætti umboðsmanns barna hefur ekki heimild til að skera úr um hvort íslenska ríkið brjóti Barnasáttmálann. Dómstólar hafa úrskurðarvald um það svo höfða þarf mál til að fá úr þessu álitamáli skorið.
Þriðja grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo: „1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“
Þá hljóðar 22. grein sáttmálans svo: „Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leitar eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið er flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum og starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það er í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið er á um í samningi þessum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eiga aðild að.“

Á síðasta ári féll dómur við Mannréttindadómstól Evrópu. Þar komst dómstóllinn að því að Sviss hefði verið óheimilt að vísa hælisleitanda aftur til Ítalíu án þess að fá staðfestingu þess efnis frá Ítalíu að mannréttindi og þarfir hælisleitandans yrðu virt við komuna til landsins að nýju.
„Þetta er í raun eitthvað sem íslensk stjórnvöld þyrftu að gera samkvæmt þessum dómi, ef þau ætla að halda því til streitu að senda þessa fjölskyldu úr landi. Þau þyrftu að krefjast þess að fá tryggingu fyrir því að mannréttindi þeirra og þar með talin barnanna yrðu virt,“ segir Björn.
Sýrlenska fjölskyldan lýsti því yfir að í Grikklandi biði þeirra að búa á götunni. Hingað hafa líka komið fjölskyldur sem bjuggu í flóttamannabúðum í öðrum Evrópulöndum. Aðspurður hvort flóttamannabúðir séu undir einhverjum kringumstæðum hentugur staður fyrir börn að búa á segir Björn: „Ég held að mér sé óhætt að segja að þær séu það í rauninni ekki. Með stöðu flóttamanns ættir þú að fá aðgang að einhvers konar félagslegu kerfi en allt bendir til þess að vandinn í Grikklandi sé þeim ofviða. Börnin eiga að njóta vafans.“