Hornfirðingar vilja að breytingar verði gerðar á frumvarpi til laga um náttúruvernd þannig að heimild til að slá upp tjaldi í byggð verði þrengd svo aðeins verði leyfilegt að tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum.
Í umsögn sem lögð var fyrir bæjarráð Hornafjarðar er rakið að í frumvarpinu sé „fjallað um heimild til að tjalda í byggð við alfaraleið í óræktuðu landi til einnar nætur“ í tjöldum sem ætluð séu til gistingar.
Segir í umsögninni að æ fleiri ferðamenn velji að ferðast á bílaleigubílum og svokölluðum „camperum“ fremur en í skipulögðum hópferðum.
„Samhliða þessu hefur orðið vart við að ferðafólk skilur eftir úrgang af ýmsu tagi. Kostnaður við að hreinsa úrgang eftir ferðamenn við áningarstaði fellur á sveitarfélagið og aðra landeigendur,“ segir í umsögninni. Bent er á að mikil uppbygging hafi orðið á tjaldstæðum og greiður aðgangur sé að tjaldstæðum í byggð þar sem öll aðstaða sé til staðar.
„Ferðamenn sem fara um landið í byggð ættu í langflestum eða öllum tilfellum að geta komist á skipulögð tjaldsvæði. Það er því með öllu óþarft að veita svo víðtæka heimild til að slá upp tjöldum í byggð sem frumvarpið gerir ráð fyrir,“ segir í umsögn Hornfirðinga.
Sveitarstjórn Skaftáhrepps vill ekki að heimilt verði að nota tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi nema á skipulögðum svæðum utan þéttbýlis nema með sérstöku leyfi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það sé leyft á óræktuðum svæðum í vegasambandi.
„Næturdvöl veldur ónæði á landeiganda og aðra ferðamenn, óþrifnaði vegna úrgangs, ásamt aukinni eldhættu á viðkvæmum landsvæðum,“ segir í umsögn Skaftárhrepps þar sem jafnframt er varað við ýmsum hættum vegna náttúruhamfara. „Erfitt er að tryggja öryggi þeirra sem dveljast utan merktra svæða.“
Ekki megi tjalda nema á sérstökum svæðum
Garðar Örn Úlfarsson skrifar
