Ég er mikið búin að velta því fyrir mér undanfarið hvernig sé best að skipuleggja lífið þannig að ég nái nú að klára þau verkefni sómasamlega sem ég er búin að taka að mér.
Samstarfskona mín var svo yndisleg að kynna mig fyrir Google Docs og annar samstarfsaðili fyrir Evernote, nú og svo er vinkona mín óskaplega hrifin af Trello-kerfinu, sem ég kynnti mér líka um daginn.
Aðrir í kringum mig sverja að venjuleg dagbók sé allra best, svo er það síminn sem allt man og getur. Allra síst dettur mér í hug að nota á mér hausinn til þess að halda utan um þetta allt saman. Hvernig getur verið að það sé svona flókið að skipuleggja sig?
Stundum fallast mér hendur en einhvern veginn gengur þetta allt upp að lokum og þá sérstaklega þegar maður er með rétta hugarfarið, er það ekki alltaf lausnin?
Jákvætt og raunsætt hugarfar hjálpar manni við að halda rétt á spilunum og koma hlutum í verk með það að markmiði að klára og gera eins vel og maður getur hverju sinni.
Við höfum öll mismunandi nálgun á það hvernig okkur finnst best að klára hlutina. Sumir vinna best undir álagi, aðrir þurfa ramma og enn aðrir vilja klára verkefni vel áður en þarf að skila þeim.

- Notaðu tímastjórnunartæki eins og Pomodoro en það virkar þannig að þú vinnur af fullum fókus í 25 mínútur og tekur þér svo hlé í 5-10 mínútur.
- Stundum þegar ég er í erfiðum verkefnum verð ég eirðarlaus og enda á því að hanga á samfélagsmiðlunum. Self Control-forritið hefur hjálpað mér mikið en þá get ég lokað fyrir ákveðnar síður í ákveðið langan tíma.
- Mér finnst best að skipuleggja daginn eftir áður en ég fer í háttinn. Þá sef ég betur og er búin að tæma hugann. Ég er komin með markmið fyrir daginn.
- Lærðu að segja nei. Það er enginn greiði gerður með því að taka of mikið að sér. Hugaðu að því hversu mikilvægt verkefnið er, hversu umfangsmikið og hversu mikill tími fari í það áður en þú segir já.
- Ekki gleyma að hugsa um sjálfa/n þig og taka frá tíma fyrir fjölskylduna, vinina og ekki síst sjálfið. Þú þarft stundum að gera ekki neitt.