Fyrir einstakling sem býr einn eru óskertar örorkulífeyrisgreiðslur án heimilisuppbótar 172.516 krónur eftir skatt en 192.021 króna með heimilisuppbót. Um 30 prósent örorkulífeyrisþega fá heimilisuppbót skerta eða óskerta. „Þetta dugar engan veginn til þess að fólk nái að framfleyta sér á viðunandi hátt. 300 þúsund krónur á mánuði eru algjört lágmark til að fólk geti lifað í íslensku samfélagi,“ tekur Halldór fram.
Hann minnir á að í 69. gr. laga um almannatryggingar segi að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Samkvæmt skýrslu sem Talnakönnun vann fyrir ÖBÍ um þróun bóta Tryggingastofnunar til öryrkja frá 2008 til 2013 náði lífeyririnn hvorki að halda í við þróun lægstu launa, verðlags né launavísitölu. „Við höfum ekki fengið leiðréttingu nema að hluta,“ segir Halldór.

Nýkjörinn formaður LEB, Haukur Ingibergsson, segir það liggja í loftinu að lægstu laun muni hækka töluvert mikið í komandi kjarasamningum. „Komið hefur fram sterk krafa um að lægstu laun hækki í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum. Það er ekki síður ástæða til að þeir sem ekki njóta atvinnutekna heldur lífeyris fái sams konar hækkun. Ekki má gleyma að aldraðir hafa ekki notið þess launaskriðs sem orðið hefur á vinnumarkaði á síðustu árum og leitt hefur til gliðnunar á milli kjara launþega og lífeyrisþega,“ segir Haukur.