Keikó í bearnaise-sósu Sif Sigmarsdóttir skrifar 26. júní 2015 07:00 Röðin fyrir utan sædýrasafnið í London var löng, sólin heit og annað hvert barn var vælandi – þar á meðal mitt. Ég var löðursveitt og að fá hausverk. Allt var sem sé eins og það átti að vera. Því það að vera foreldri er píslarganga. Þegar maður eignaðist afkvæmi var lífið ekki lengur manns eigið heldur átti maður að fórna sér fyrir börnin. Það var mér allavega sagt. Ég hafði ekki gert mikið af því. Að fórna mér. Undanfarnar helgar hafði ég að mestu gert það sem mig langaði til. Ég hafði bundið barnið í kerruna og farið á sýningu um múmíur í British Museum. Ég hafði keypt mér frið með því að henda í það kassa af hunangs-Cheeriosi. Ég hafði heimsótt National Gallery til að skoða myndir eftir Rubens. Þegar þöggunarmáttur sykursins í Cheeriosinu rann sitt skeið dró ég upp iPadinn og kveikti á bíómyndinni Frozen sem barnið horfði á frá upphafi til enda í kerrunni, gestum safnsins ýmist til furðu, mæðu eða hryllings. En það var komið að skuldadögum. Komið var að mér að þjást. Nú skyldi barninu skemmt. Sædýrasafnið varð fyrir valinu.Aðgerðir gegn Íslandi Hvalveiðivertíðin er nú að hefjast hér á landi. Sjávarútvegsráðherra ákvað í lok síðasta árs að heimila meðal annars veiðar á 154 langreyðum á vertíðinni í sumar. Langreyðurin er á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) yfir dýr í útrýmingarhættu. Það kemur því fáum á óvart að í síðustu viku hafi rúmlega tuttugu umhverfis- og dýraverndunarsamtök tekið sig saman og hvatt Barack Obama Bandaríkjaforseta til að grípa til aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða.Kássa úr dalmatíuhundum Játning: Mér líkar ekki við dýr. Ég er hrædd við hunda. Ég sé ekkert krúttlegt við katta-vídjó á Youtube. Ég horfi á teiknimyndina Bamba og mig langar í dádýrasteik. Ég hef almennt illan bifur á dýrum nema þau hvíli matbúin á diski. Við dóttirin höfðum ekki fyrr gengið inn á sædýrasafnið í London en í ljós kom að afstaðan er arfgeng. „Ó, sjáðu krúttlega fiskinn,“ gólaði ég af uppgerðarákafa og benti á skötu sem svamlaði um í baðkari úr gleri. Stelpan fölnaði upp. Svo byrjaði hún að öskra. Ekki skæla. Öskra. Múmíurnar í British Museum hafði hún virt fyrir sér af tómlæti. Biblíumyndir Rubens þar sem englar hrynja af himnum og grillast í logum helvítis vöktu engin viðbrögð. En skata. Það var eins og sjálfur skrattinn væri mættur. Ekki einu sinni litskrúðugu skrautfiskarnir í búrinu sem kallaðist „Finding Nemo“ hlutu náð fyrir augum dótturinnar. Við hlupum fram hjá hákörlunum og beint út. Það er því þrátt fyrir erfðafræðilega andúð á dýrum og mikið viðnámsþrek gegn manngervingum Walt Disney-samsteypunnar – ég myndi búa til sushi úr Nemo, canard à l'orange úr Andrési önd og kássu úr dalmatíuhundunum – sem ég spyr eftirfarandi spurningar: Hvers vegna í ósköpunum stundum við Íslendingar hvalveiðar?Hvalveiðar og lambakjötið Það er alveg ljóst að hvalveiðar gera ímynd Íslands á alþjóðavettvangi almennt engan greiða. En beinir viðskiptahagsmunir eru einnig í húfi. Hvalveiðar geta skaðað ferðaþjónustuna. Forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa til að mynda kvartað undan hrefnuveiðum á Faxaflóa. Hvalveiðar geta jafnframt bitnað á matvælaútflutningi. Dýraverndunarsamtök kalla í auknum mæli eftir því að kaupmenn og neytendur sniðgangi íslenskar fiskafurðir sem fluttar eru út af fyrirtækjum sem tengjast hvalveiðum. Einnig hafa verið leiddar að því líkur að samdráttur á sölu íslensks lambakjöts í Bandaríkjunum tengist hvalveiðum. Hvalveiðar ógna auk þess stöðu Íslands í samfélagi þjóða. Fyrir ári var Íslendingum til að mynda sérstaklega ekki boðið að taka þátt í stórri hafráðstefnu sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stóð fyrir. Ástæðan var hvalveiðar. Og nú er þrýst á Bandaríkjaforseta um harðari refsiaðgerðir gegn Íslendingum.Gáfnafar og tilfinninganæmi Þegar ég braust út úr sædýrasafninu í London með barnið organdi í fanginu þröngvaði starfsmaður upp á mig bæklingi um skuggahliðar hvalveiða. Við Íslendingar virðumst ekki gefa mikið fyrir tilfinningaþrungin dýraverndunarsjónarmið þegar kemur að hvalveiðum. Meint gáfnafar skepnunnar og tilfinninganæmi vegur lítið. Yfirlýsingar um að margar hvalategundir, þar á meðal langreyður, séu í útrýmingarhættu virðast heldur ekki fá á okkur. Sjálf hef ég jafnlitlar taugar til hvala og Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. Ég hefði borðað Keikó heitinn ef hann hefði verið framreiddur með góðri bearnaise-sósu. En meira að segja við Kristján getum ekki hunsað ein rök gegn hvalveiðum. Fjárhagslegur ávinningur þess að stunda hvalveiðar hefur af mörgum verið dreginn í efa. Ef við horfum á hvalveiðar eingöngu út frá praktískum sjónarmiðum er mergurinn málsins þessi: Er hagnaður hvalveiða nógu mikill til að það borgi sig að stunda þær í óþökk svo gott sem allra þjóða heims? Ef hvalveiðar leiða af sér viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir á borð við þær að fá ekki að taka þátt í alþjóðlegum samkundum sem varða sjávarútveginn, undirstöðuatvinnugrein landsins, erum við ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að halda veiðunum áfram? Er ekki tími til kominn að við hættum þessari dellu sem hvalveiðar eru? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Kynþáttahyggja, einangrunarhyggja og Evrópusambandsaðild Haraldur Ólafsson Skoðun Kæru kjósendur í Suðvesturkjördæmi Alma D. Möller Skoðun Hvers vegna við veljum ekki „Reykjavíkurmódelið“ Meyvant Þórólfsson Skoðun Keyrum á nýrri menntastefnu Arnór Heiðarsson Skoðun
Röðin fyrir utan sædýrasafnið í London var löng, sólin heit og annað hvert barn var vælandi – þar á meðal mitt. Ég var löðursveitt og að fá hausverk. Allt var sem sé eins og það átti að vera. Því það að vera foreldri er píslarganga. Þegar maður eignaðist afkvæmi var lífið ekki lengur manns eigið heldur átti maður að fórna sér fyrir börnin. Það var mér allavega sagt. Ég hafði ekki gert mikið af því. Að fórna mér. Undanfarnar helgar hafði ég að mestu gert það sem mig langaði til. Ég hafði bundið barnið í kerruna og farið á sýningu um múmíur í British Museum. Ég hafði keypt mér frið með því að henda í það kassa af hunangs-Cheeriosi. Ég hafði heimsótt National Gallery til að skoða myndir eftir Rubens. Þegar þöggunarmáttur sykursins í Cheeriosinu rann sitt skeið dró ég upp iPadinn og kveikti á bíómyndinni Frozen sem barnið horfði á frá upphafi til enda í kerrunni, gestum safnsins ýmist til furðu, mæðu eða hryllings. En það var komið að skuldadögum. Komið var að mér að þjást. Nú skyldi barninu skemmt. Sædýrasafnið varð fyrir valinu.Aðgerðir gegn Íslandi Hvalveiðivertíðin er nú að hefjast hér á landi. Sjávarútvegsráðherra ákvað í lok síðasta árs að heimila meðal annars veiðar á 154 langreyðum á vertíðinni í sumar. Langreyðurin er á lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN) yfir dýr í útrýmingarhættu. Það kemur því fáum á óvart að í síðustu viku hafi rúmlega tuttugu umhverfis- og dýraverndunarsamtök tekið sig saman og hvatt Barack Obama Bandaríkjaforseta til að grípa til aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða.Kássa úr dalmatíuhundum Játning: Mér líkar ekki við dýr. Ég er hrædd við hunda. Ég sé ekkert krúttlegt við katta-vídjó á Youtube. Ég horfi á teiknimyndina Bamba og mig langar í dádýrasteik. Ég hef almennt illan bifur á dýrum nema þau hvíli matbúin á diski. Við dóttirin höfðum ekki fyrr gengið inn á sædýrasafnið í London en í ljós kom að afstaðan er arfgeng. „Ó, sjáðu krúttlega fiskinn,“ gólaði ég af uppgerðarákafa og benti á skötu sem svamlaði um í baðkari úr gleri. Stelpan fölnaði upp. Svo byrjaði hún að öskra. Ekki skæla. Öskra. Múmíurnar í British Museum hafði hún virt fyrir sér af tómlæti. Biblíumyndir Rubens þar sem englar hrynja af himnum og grillast í logum helvítis vöktu engin viðbrögð. En skata. Það var eins og sjálfur skrattinn væri mættur. Ekki einu sinni litskrúðugu skrautfiskarnir í búrinu sem kallaðist „Finding Nemo“ hlutu náð fyrir augum dótturinnar. Við hlupum fram hjá hákörlunum og beint út. Það er því þrátt fyrir erfðafræðilega andúð á dýrum og mikið viðnámsþrek gegn manngervingum Walt Disney-samsteypunnar – ég myndi búa til sushi úr Nemo, canard à l'orange úr Andrési önd og kássu úr dalmatíuhundunum – sem ég spyr eftirfarandi spurningar: Hvers vegna í ósköpunum stundum við Íslendingar hvalveiðar?Hvalveiðar og lambakjötið Það er alveg ljóst að hvalveiðar gera ímynd Íslands á alþjóðavettvangi almennt engan greiða. En beinir viðskiptahagsmunir eru einnig í húfi. Hvalveiðar geta skaðað ferðaþjónustuna. Forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa til að mynda kvartað undan hrefnuveiðum á Faxaflóa. Hvalveiðar geta jafnframt bitnað á matvælaútflutningi. Dýraverndunarsamtök kalla í auknum mæli eftir því að kaupmenn og neytendur sniðgangi íslenskar fiskafurðir sem fluttar eru út af fyrirtækjum sem tengjast hvalveiðum. Einnig hafa verið leiddar að því líkur að samdráttur á sölu íslensks lambakjöts í Bandaríkjunum tengist hvalveiðum. Hvalveiðar ógna auk þess stöðu Íslands í samfélagi þjóða. Fyrir ári var Íslendingum til að mynda sérstaklega ekki boðið að taka þátt í stórri hafráðstefnu sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna stóð fyrir. Ástæðan var hvalveiðar. Og nú er þrýst á Bandaríkjaforseta um harðari refsiaðgerðir gegn Íslendingum.Gáfnafar og tilfinninganæmi Þegar ég braust út úr sædýrasafninu í London með barnið organdi í fanginu þröngvaði starfsmaður upp á mig bæklingi um skuggahliðar hvalveiða. Við Íslendingar virðumst ekki gefa mikið fyrir tilfinningaþrungin dýraverndunarsjónarmið þegar kemur að hvalveiðum. Meint gáfnafar skepnunnar og tilfinninganæmi vegur lítið. Yfirlýsingar um að margar hvalategundir, þar á meðal langreyður, séu í útrýmingarhættu virðast heldur ekki fá á okkur. Sjálf hef ég jafnlitlar taugar til hvala og Kristján Loftsson forstjóri Hvals hf. Ég hefði borðað Keikó heitinn ef hann hefði verið framreiddur með góðri bearnaise-sósu. En meira að segja við Kristján getum ekki hunsað ein rök gegn hvalveiðum. Fjárhagslegur ávinningur þess að stunda hvalveiðar hefur af mörgum verið dreginn í efa. Ef við horfum á hvalveiðar eingöngu út frá praktískum sjónarmiðum er mergurinn málsins þessi: Er hagnaður hvalveiða nógu mikill til að það borgi sig að stunda þær í óþökk svo gott sem allra þjóða heims? Ef hvalveiðar leiða af sér viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir á borð við þær að fá ekki að taka þátt í alþjóðlegum samkundum sem varða sjávarútveginn, undirstöðuatvinnugrein landsins, erum við ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að halda veiðunum áfram? Er ekki tími til kominn að við hættum þessari dellu sem hvalveiðar eru?