Draumur stjörnufræðingsins Stefán Pálsson skrifar 7. febrúar 2016 12:30 Margir töldu að frásögnin í Draumnum væri að hluta til sjálfsævisöguleg. Þannig lá leið aðalpersónunnar Duracotusar til Tycho Brahe, þar sem hann nam stjörnufræði á rannsóknarstöðinni í Danmörku áður en haldið var aftur til Fiolxhildar á Íslandi Duracotus, fjórtán ára íslenskur piltur, elst upp hjá móður sinni, hinni göldróttu Fiolxhilde, árið 1608. Sjómaðurinn faðir hans hafði látist áratug fyrr, þá 150 ára að aldri eftir sjötíu ára hjónaband. Fiolxhilde framfleytir sér með því að tína grös í töfradrykki í hlíðum Heklu og magnar upp anda sem gefa byr, til að selja sæfarendum í pokum úr geitaskinni. Hún tekur soninn með á markaðinn, en hann ristir gat á einn pokann í óvitaskap og í bræði selur móðirin Duracotus næsta skipstjóra. Svona hefst sérkennileg bók, „Draumurinn“ (Somnium á latínu), sem út kom árið 1634. Líklega er réttast að lýsa henni sem vísindagrein í skáldlegum búningi. Aðrir hafa kallað hana vísindaskáldsögu – þótt enginn sautjándu aldar maður hefði skilið það hugtak. Höfundurinn var Jóhannes Kepler og hafði hann legið í gröf sinni í fjögur ár þegar verkið komst loks á prent. Kepler er einn kunnasti stjörnufræðingur sögunnar og átti stóran þátt í að bylta heimsmynd vesturlandabúa. Hann hafnaði því að Jörðin væri miðja alheimsins og setti fram þrjár kenningar um gang reikistjarna, meðal annars þá að pláneturnar færu umhverfis Sólina eftir sporöskjulaga brautum. Kenningin þótti ótrúverðug þar sem hún stangaðist á við viðurkennd eðlisfræðilögmál, en gekk upp eftir að Englendingurinn Isaac Newton setti fram aflfræði sína og kenninguna um þyngdarkraft Jarðar.Vandræðalegar vangaveltur Vegna þáttar Keplers í að ryðja Jarðmiðjukenningunni úr vegi, hefur hann lengi verið talinn ein af hetjum vísindanna. Sú staðreynd hefur hins vegar gert það að verkum að mörgum þykir óþægilegt að fjalla um þá þætti í skrifum hans sem ekki þykja par vísindalegir í dag. Sömu sögu má raunar segja um marga vísindamenn fyrri alda. Þannig þykir sjálfsagt að rifja upp framlag Newtons til eðlisfræði og stærðfræði, en rétt að sópa undir teppið öllum þeim ókjörum sem hann skrifaði um guðspekiþrugl og gullgerðarlist, sem hann taldi sjálfur þó síst ómerkilegri en reikningspárið. Sömu sögu er að segja um Kepler. Þrátt fyrir vísindagáfurnar var hann mikill trúmaður og hefði líklega sjálfur kosið að verða prestur, en var þvingaður til að gerast stjörnufræðingur. Guðspekin og þó kannski enn frekar platónsk talnaspeki var Kepler alla tíð hjartfólgin og átti líklega stóran þátt í að leiða hann að niðurstöðum sínum. Kepler var jafnframt áhugamaður um tónfræði og var sannfærður um að finna mætti samsvörun milli tónstigans í tónlistinni og brauta reikistjarnanna. Skiljanlega er raunvísindafólki ekkert alltof vel við að rifja upp að slík ruglhugmynd kunni að hafa átt þátt í að Þjóðverjinn snjalli hrapaði að réttri niðurstöðu. Kepler fæddist árið 1571 í þýska ríkinu Baden-Würtenberg. Hann hafði lítið af föður sínum að segja, sem stakk snemma af til að gerast málaliði í einni af óteljandi smástyrjöldum þessara ára, en var þeim mun hændari að móður sinni. Kepler fæddist fyrir tímann og var alla tíð pasturslítill og veikburða. Veikindi í æsku fóru illa með sjónina, sem gerir það raunar merkilegt að hann hafi dugað til stjörnufræðirannsókna. Á háskólaárunum lét Kepler sannfærast af kenningum Kóperníkusar um að Jörðin og hinar reikistjörnurnar snerust umhverfis sólina. Prófessorarnir voru ekki á sama máli og var Kepler öðrum þræði að storka þeim þegar hann skrifaði ritgerð um hvernig gangur himintungla myndi líta út séð frá Tunglinu miðað við Sólmiðjukenninguna. Þessi ritgerð, sem vissulega er þurr og tæknileg á köflum, varð löngu síðar þungamiðjan í Draumnum.Við fótskör meistarans Hvað sem stælunum við kennarana leið, þótti Kepler gríðarlega efnilegur. Fyrsta veigamikla stjörnufræðirit hans eftir útskrift var ritað til varnar og nánari útfærslu á kenningum Kóperníkusar. Í kjölfarið komst hann í kynni við Danann Tycho Brahe, sem þá var talinn mestur stjörnufræðinga – hafði fengið Danakonung til að reisa sér fullkomnustu stjörnuskoðunarstöð í heimi á Eyrarsundi en var síðar keyptur til keisarans í Prag. Tycho Brahe kunni að meta gáfur Keplers, þótt hann deildi ekki aðdáun hans á Kóperníkusi. Segja má að Tycho hafi staðið milli tveggja heimskerfa. Hann sá að Jarðmiðjukenningin gengi ekki upp, en var ekki til í að gleypa Sólmiðjukenninguna hráa. Þess í stað reyndi hann að fara bil beggja, með því að láta Sólina og Tunglið snúast umhverfis Jörðu, en alla aðra fylgihnetti umhverfis Sólina. Við hirð keisarans í Prag átti Tycho Brahe að vinna það verk sem halda myndi nafni hans – og jafnframt keisarans – á lofti um ókomna tíð. Hann hugðist útbúa fullkomnustu töflur með staðsetningarhnitum allra stjarna á himninum sem sést hefðu. Með áralangar rannsóknir sínar í rannsóknarstöðinni í Danmörku að vopni, yrðu töflur þessar ómissandi hjálpartæki allra stjörnufræðinga og að sjálfsögðu yrði verkið sett upp út frá hinni blönduðu Jarð-/Sólmiðjukenningu vísindamannsins. Kepler var fenginn Tycho til aðstoðar, en meistaranum entist ekki aldur til að ljúka við gerð taflnanna. Hann lést árið 1601 eftir að hafa stillt sig of lengi um að fara á klósettið í veislu við hirðina (ef trúa má flökkusögunum) eða eftir að hafa borðað óþarflega mikið af kvikasilfri í lækningaskyni (sem er líklegra). Það kom því í hlut Keplers að halda áfram vinnunni við stjörnufræðirannsóknirnar, sem að lokum leiddi til útgáfu – en þá hafði Kepler notað sína eigin Sólmiðjukenningu með sporöskjulöguðum brautum reikistjarna sem grunnlíkan.Misskilningur og nornafár Á þessum árum hafði Kepler dustað rykið af gamla háskólahandritinu og búið það í skáldsögubúning. Hann lagði talsverða vinnu í verkið, þannig velti hann lengi fyrir sér nafninu á móðurinni, sem hann vildi láta hljóma íslenskt án þess að þekkja neinn Íslending til að leita ráða hjá. Fiolxhilde varð þannig lærður tilbúningur, þar sem hinn sjóndapri Kepler rýndi í Íslandskort og sá að mörg örnefni enduðu á „fjörðr“, sem hann mislas sem sem „fiolx“ og Hildur eða Hilde var jú þekkt norrænt kvenmannsnafn. Margir töldu að frásögnin í Draumnum væri að hluta til sjálfsævisöguleg. Þannig lá leið aðalpersónunnar Duracotusar til Tycho Brahe, þar sem hann nam stjörnufræði á rannsóknarstöðinni í Danmörku áður en haldið var aftur til Fiolxhildar á Íslandi. Sá orðrómur átti eftir að valda Kepler miklu hugarangri fáeinum árum síðar þegar móðir hans grasalæknirinn var ákærð fyrir galdra og lenti í langvinnum réttarhöldum vegna þess. Lítið þurfti til að fá á sig galdraorð í Þýskalandi sautjándu aldar og líklega var bara hefðbundnum nágrannaerjum um að kenna, en Kepler var sjálfur sannfærður um að sökin væri sín. Einhvern veginn hefði afrit af Draumnum borist til heimaborgar hans og orðið kveikjan að galdraásökununum. Þegar loksins var búið að sýkna móðurina ákvað Kepler því að búa handritið til prentunar, en að þessu sinni með ítarlegum neðanmálsgreinum (sem eru mun lengri en meginmálið sjálft að lengd) til að útskýra allar vísanir og hugsunina á bak við minnstu smáatriði í textanum til að uppræta misskilning. Það var í þeirri útgáfu sem verkið leit loks dagsins ljós, en þá eftir dauða höfundarins sem fyrr segir.Tunglferðin Duracotus snýr aftur til móður sinnar, sigldur maður og sprenglærður. Verða þar fagnaðarfundir og Fiolxhilde útskýrir að sjálf hafi hún numið stjörnufræði af djöflum úr iðrum Heklu. Djöflarnir bjóðast til að slengja Duracotusi til Tunglsins, þótt þeir láti þess getið að slíkt sé háskaför og henti eiginlega ekki öðrum en skorpnum kerlingum. Ferðin til Mánans tekur fjórar klukkustundir á ógnarhraða, þar sem leiðin liggur meðal annars í gegnum hinn torkennilega eter í himingeimnum (eða „ljósvakann“ eins og Jónas Hallgrímsson nefndi hann síðar). Til að forðast köfnun á leiðinni þarf Duracotus því að troða súrefnisríkum svömpum í vit sín. Sögunni fylgir að einungis sé hægt að ráðast í ferðalag þetta meðan á tunglmyrkva stendur. Þegar á áfangastað er komið getur íslenski Tunglfarinn virt fyrir sér himininn og er því sem þar fyrir augu ber lýst af þurri nákvæmni. Það hvernig umhorfs er á Tunglinu vekur furðulítinn áhuga höfundarins. Hann gerir þó ráð fyrir að þar sé að finna plöntu-, dýralíf og siðmenningu. Á þeirri hlið sem snýr að Jörðu er síbjart og blómleg menning, en á skuggahliðinni lifa villiþjóðir á lágu menningarstigi – en áður en kemur að því að lýsa neinu af þessu hrekkur sögumaðurinn upp af draumi sínum. Sagan er búin og enginn veit hvernig Íslendingnum í fyrstu vísindaskáldsögunni reiddi af. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Auðir og ógildir með kosningakaffi Lífið „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár Lífið Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Lífið Fleiri fréttir Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið Sjá meira
Duracotus, fjórtán ára íslenskur piltur, elst upp hjá móður sinni, hinni göldróttu Fiolxhilde, árið 1608. Sjómaðurinn faðir hans hafði látist áratug fyrr, þá 150 ára að aldri eftir sjötíu ára hjónaband. Fiolxhilde framfleytir sér með því að tína grös í töfradrykki í hlíðum Heklu og magnar upp anda sem gefa byr, til að selja sæfarendum í pokum úr geitaskinni. Hún tekur soninn með á markaðinn, en hann ristir gat á einn pokann í óvitaskap og í bræði selur móðirin Duracotus næsta skipstjóra. Svona hefst sérkennileg bók, „Draumurinn“ (Somnium á latínu), sem út kom árið 1634. Líklega er réttast að lýsa henni sem vísindagrein í skáldlegum búningi. Aðrir hafa kallað hana vísindaskáldsögu – þótt enginn sautjándu aldar maður hefði skilið það hugtak. Höfundurinn var Jóhannes Kepler og hafði hann legið í gröf sinni í fjögur ár þegar verkið komst loks á prent. Kepler er einn kunnasti stjörnufræðingur sögunnar og átti stóran þátt í að bylta heimsmynd vesturlandabúa. Hann hafnaði því að Jörðin væri miðja alheimsins og setti fram þrjár kenningar um gang reikistjarna, meðal annars þá að pláneturnar færu umhverfis Sólina eftir sporöskjulaga brautum. Kenningin þótti ótrúverðug þar sem hún stangaðist á við viðurkennd eðlisfræðilögmál, en gekk upp eftir að Englendingurinn Isaac Newton setti fram aflfræði sína og kenninguna um þyngdarkraft Jarðar.Vandræðalegar vangaveltur Vegna þáttar Keplers í að ryðja Jarðmiðjukenningunni úr vegi, hefur hann lengi verið talinn ein af hetjum vísindanna. Sú staðreynd hefur hins vegar gert það að verkum að mörgum þykir óþægilegt að fjalla um þá þætti í skrifum hans sem ekki þykja par vísindalegir í dag. Sömu sögu má raunar segja um marga vísindamenn fyrri alda. Þannig þykir sjálfsagt að rifja upp framlag Newtons til eðlisfræði og stærðfræði, en rétt að sópa undir teppið öllum þeim ókjörum sem hann skrifaði um guðspekiþrugl og gullgerðarlist, sem hann taldi sjálfur þó síst ómerkilegri en reikningspárið. Sömu sögu er að segja um Kepler. Þrátt fyrir vísindagáfurnar var hann mikill trúmaður og hefði líklega sjálfur kosið að verða prestur, en var þvingaður til að gerast stjörnufræðingur. Guðspekin og þó kannski enn frekar platónsk talnaspeki var Kepler alla tíð hjartfólgin og átti líklega stóran þátt í að leiða hann að niðurstöðum sínum. Kepler var jafnframt áhugamaður um tónfræði og var sannfærður um að finna mætti samsvörun milli tónstigans í tónlistinni og brauta reikistjarnanna. Skiljanlega er raunvísindafólki ekkert alltof vel við að rifja upp að slík ruglhugmynd kunni að hafa átt þátt í að Þjóðverjinn snjalli hrapaði að réttri niðurstöðu. Kepler fæddist árið 1571 í þýska ríkinu Baden-Würtenberg. Hann hafði lítið af föður sínum að segja, sem stakk snemma af til að gerast málaliði í einni af óteljandi smástyrjöldum þessara ára, en var þeim mun hændari að móður sinni. Kepler fæddist fyrir tímann og var alla tíð pasturslítill og veikburða. Veikindi í æsku fóru illa með sjónina, sem gerir það raunar merkilegt að hann hafi dugað til stjörnufræðirannsókna. Á háskólaárunum lét Kepler sannfærast af kenningum Kóperníkusar um að Jörðin og hinar reikistjörnurnar snerust umhverfis sólina. Prófessorarnir voru ekki á sama máli og var Kepler öðrum þræði að storka þeim þegar hann skrifaði ritgerð um hvernig gangur himintungla myndi líta út séð frá Tunglinu miðað við Sólmiðjukenninguna. Þessi ritgerð, sem vissulega er þurr og tæknileg á köflum, varð löngu síðar þungamiðjan í Draumnum.Við fótskör meistarans Hvað sem stælunum við kennarana leið, þótti Kepler gríðarlega efnilegur. Fyrsta veigamikla stjörnufræðirit hans eftir útskrift var ritað til varnar og nánari útfærslu á kenningum Kóperníkusar. Í kjölfarið komst hann í kynni við Danann Tycho Brahe, sem þá var talinn mestur stjörnufræðinga – hafði fengið Danakonung til að reisa sér fullkomnustu stjörnuskoðunarstöð í heimi á Eyrarsundi en var síðar keyptur til keisarans í Prag. Tycho Brahe kunni að meta gáfur Keplers, þótt hann deildi ekki aðdáun hans á Kóperníkusi. Segja má að Tycho hafi staðið milli tveggja heimskerfa. Hann sá að Jarðmiðjukenningin gengi ekki upp, en var ekki til í að gleypa Sólmiðjukenninguna hráa. Þess í stað reyndi hann að fara bil beggja, með því að láta Sólina og Tunglið snúast umhverfis Jörðu, en alla aðra fylgihnetti umhverfis Sólina. Við hirð keisarans í Prag átti Tycho Brahe að vinna það verk sem halda myndi nafni hans – og jafnframt keisarans – á lofti um ókomna tíð. Hann hugðist útbúa fullkomnustu töflur með staðsetningarhnitum allra stjarna á himninum sem sést hefðu. Með áralangar rannsóknir sínar í rannsóknarstöðinni í Danmörku að vopni, yrðu töflur þessar ómissandi hjálpartæki allra stjörnufræðinga og að sjálfsögðu yrði verkið sett upp út frá hinni blönduðu Jarð-/Sólmiðjukenningu vísindamannsins. Kepler var fenginn Tycho til aðstoðar, en meistaranum entist ekki aldur til að ljúka við gerð taflnanna. Hann lést árið 1601 eftir að hafa stillt sig of lengi um að fara á klósettið í veislu við hirðina (ef trúa má flökkusögunum) eða eftir að hafa borðað óþarflega mikið af kvikasilfri í lækningaskyni (sem er líklegra). Það kom því í hlut Keplers að halda áfram vinnunni við stjörnufræðirannsóknirnar, sem að lokum leiddi til útgáfu – en þá hafði Kepler notað sína eigin Sólmiðjukenningu með sporöskjulöguðum brautum reikistjarna sem grunnlíkan.Misskilningur og nornafár Á þessum árum hafði Kepler dustað rykið af gamla háskólahandritinu og búið það í skáldsögubúning. Hann lagði talsverða vinnu í verkið, þannig velti hann lengi fyrir sér nafninu á móðurinni, sem hann vildi láta hljóma íslenskt án þess að þekkja neinn Íslending til að leita ráða hjá. Fiolxhilde varð þannig lærður tilbúningur, þar sem hinn sjóndapri Kepler rýndi í Íslandskort og sá að mörg örnefni enduðu á „fjörðr“, sem hann mislas sem sem „fiolx“ og Hildur eða Hilde var jú þekkt norrænt kvenmannsnafn. Margir töldu að frásögnin í Draumnum væri að hluta til sjálfsævisöguleg. Þannig lá leið aðalpersónunnar Duracotusar til Tycho Brahe, þar sem hann nam stjörnufræði á rannsóknarstöðinni í Danmörku áður en haldið var aftur til Fiolxhildar á Íslandi. Sá orðrómur átti eftir að valda Kepler miklu hugarangri fáeinum árum síðar þegar móðir hans grasalæknirinn var ákærð fyrir galdra og lenti í langvinnum réttarhöldum vegna þess. Lítið þurfti til að fá á sig galdraorð í Þýskalandi sautjándu aldar og líklega var bara hefðbundnum nágrannaerjum um að kenna, en Kepler var sjálfur sannfærður um að sökin væri sín. Einhvern veginn hefði afrit af Draumnum borist til heimaborgar hans og orðið kveikjan að galdraásökununum. Þegar loksins var búið að sýkna móðurina ákvað Kepler því að búa handritið til prentunar, en að þessu sinni með ítarlegum neðanmálsgreinum (sem eru mun lengri en meginmálið sjálft að lengd) til að útskýra allar vísanir og hugsunina á bak við minnstu smáatriði í textanum til að uppræta misskilning. Það var í þeirri útgáfu sem verkið leit loks dagsins ljós, en þá eftir dauða höfundarins sem fyrr segir.Tunglferðin Duracotus snýr aftur til móður sinnar, sigldur maður og sprenglærður. Verða þar fagnaðarfundir og Fiolxhilde útskýrir að sjálf hafi hún numið stjörnufræði af djöflum úr iðrum Heklu. Djöflarnir bjóðast til að slengja Duracotusi til Tunglsins, þótt þeir láti þess getið að slíkt sé háskaför og henti eiginlega ekki öðrum en skorpnum kerlingum. Ferðin til Mánans tekur fjórar klukkustundir á ógnarhraða, þar sem leiðin liggur meðal annars í gegnum hinn torkennilega eter í himingeimnum (eða „ljósvakann“ eins og Jónas Hallgrímsson nefndi hann síðar). Til að forðast köfnun á leiðinni þarf Duracotus því að troða súrefnisríkum svömpum í vit sín. Sögunni fylgir að einungis sé hægt að ráðast í ferðalag þetta meðan á tunglmyrkva stendur. Þegar á áfangastað er komið getur íslenski Tunglfarinn virt fyrir sér himininn og er því sem þar fyrir augu ber lýst af þurri nákvæmni. Það hvernig umhorfs er á Tunglinu vekur furðulítinn áhuga höfundarins. Hann gerir þó ráð fyrir að þar sé að finna plöntu-, dýralíf og siðmenningu. Á þeirri hlið sem snýr að Jörðu er síbjart og blómleg menning, en á skuggahliðinni lifa villiþjóðir á lágu menningarstigi – en áður en kemur að því að lýsa neinu af þessu hrekkur sögumaðurinn upp af draumi sínum. Sagan er búin og enginn veit hvernig Íslendingnum í fyrstu vísindaskáldsögunni reiddi af.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið Ilmaðu eins og frambjóðendur: Snorri Másson með sama ilm og Svandís Svavars Lífið Ilmaðu eins og frambjóðendur Lífið Auðir og ógildir með kosningakaffi Lífið „Án okkar verður ekki til miðjustjórn“ Lífið „Ég hef ekki verið svona hot síðan ég var unghommi“ Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Myndir: Svona var baksviðs á kappræðum leiðtoganna Lífið Kosningavökur flokkanna: Pílustaðir, hótel og kirkjur Lífið Jón og Hafdís ástfangin í 22 ár Lífið Minnist föður síns: „Til hamingju með daginn hvar sem þú ert“ Lífið Fleiri fréttir Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið Sjá meira