Rafrettur geta innihaldið skaðleg efni sem óvíst er hvaða áhrif hafi til lengri tíma. Þótt rafrettur geti verið hjálplegar sé full ástæða til að setja reglur um sölu þeirra, að mati Krabbameinsfélagsins.
Fréttastofa sagði frá því fyrir stuttu að þeim fjölgi sem nýta sér rafrettur sem hjálpartæki til að hætta að reykja sígarettur. Margir binda því vonir við að rafrettur verði bylting í tóbaksvörnum. Lára G. Sigurðardóttir, fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins, segir hinsvegar fulla ástæðu til að hafa varann á gagnvart rafrettum.
Á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra fyrir yfirstandandi þing er frumvarp til laga um breytingar á tóbaksvarnarlögum, þar sem verður tekið á rafrettum með því að innleiða nýja tilskipun Evrópusambandsins. Tilskipanin kveður meðal annars á um takmörk á magni níkótíns í vökvanum fyrir retturnar og kröfur um innihaldslýsingu.
Til stóð að leggja frumvarpið fram í vor, en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur því verið frestað fram á næsta haust.
