Íslenska tennislandsliðið tapaði fyrir Kýpur í dag í fyrsta leik sínum á á Davis Cup í Eistlandi. Birkir Gunnarsson og Rafn Kumar Bonifacius unnu tvíliðaleikinn.
Lið Kýpur er gríðarsterkt en það er talið vera þriðja sterkasta liðið á mótinu og hefur meðal annars innanborðs atvinnumanninn Marcos Baghdatis. Hann er númer 39 í heiminum í dag en hefur hæst náð að vera númer 8 í heiminum.
Rafn Kumar Bonifacius spilaði fyrsta leikinn fyrir Ísland á móti Petros Chrysochos sem er skráður spilari númer 2 hjá Kýpur en hann er númer 572 í heiminum. Petros Chrysochos sigraði örugglega 6-0 og 6-2.
Birkir Gunnarsson spilaði næst á móti Marcos Baghdatis sem er spilari númer 1 hjá Kýpur. Birkir spilaði frábærlega í fyrsta settinu og var vel inní leiknum en hann tapaði leiknum 4-6 og 0-6.
Birkir og Rafn Kumar spiluðu tvíliðaleik á móti Soteris Hadjistyllis og Constandinos Christoforou sem spila númer 3 og 4 fyrir Kýpur. Íslensku strákarnir spiluðu gríðarlega vel og fóru með sigur af hólmi í þremur settum: 6-3, 4-6 og 6-4.
